Hamilton tók fram úr Alonso í launum

Daniel Ricciardo (t.v.) var með sex sinnum lægri laun en …
Daniel Ricciardo (t.v.) var með sex sinnum lægri laun en Lewis Hamilton (t.h.) í ár. AFP

Lewis Hamilton hefur velt Fernando Alonso úr sessi sem launahæsti ökumaður formúlu-1 í ár. Samkvæmt samantekt Business Book GP þénaði Hamilton 32 milljónir evra, jafnvirði um 3,8 milljarða króna, en Alonso 30 milljónir.

Hér munar mest um að þénusta Hamilton jókst um sjö milljónir evra á árinu með nýjum samningi Hamilton við Mercedes, að sögn tekjubókar formúlunnar, en frá niðurstöðum hennar var skýrt á sportune.fr vefritinu.  

Hér er einvörðungu um kaup að ræða sem ökumennirnir fá frá liðum sínum, ekki tekjur annars staðar frá, svo sem með auglýsingasamningum hvers konar.

Sebastian Vettel fékk einnig kauphækkun hjá Ferrari á öðru ári sínu hjá liðinu. Fær hann sömu laun og Alonso hjá McLaren, eða 30 milljónir evra, sem svarar til um 3,6 milljarða króna. Aftur á móti hefur Alonso lækkað milli ára, úr 35 milljónum evra í fyrra í 30. Ekki liggur fyrir hvers vegna.

Jenson Button er í fjórða sæti en McLaren borgaði honum 17 milljónir evra í kaup í ár. Heimsmeistarinn Nico Rosberg er ekki eins dýr á fóðrum og framangreindir því hann var aðeins í fimmta sæti með 16 milljónir evra í kaup, jafnvirði um 1,9 milljarða króna.

Rosberg hafði samning fyrir 2017 og 2018 sem taldir voru myndu gefa honum 20-25 milljónir evra í aðra hönd á hvoru ári. Þá peninga hefur hann afþakkað með því að hætta keppni í formúlinni sem nýkrýndur heimsmeistari ökumanna.

Svo sem sjá má hér á eftir er launamunur í formúlunni gríðarlega mikill. Launatekjur ökumanna formúlu-1 í ár voru annars sem hér segir:

1. Lewis Hamilton, Mercedes €32m
2. Sebastian Vettel,    Ferrari €30m
2. Fernando Alonso, McLaren €30m
4. Jenson Button,    McLaren-Honda €17m
5. Nico Rosberg, Mercedes €16m
6. Kimi Raikkonen,    Ferrari €8m
7. Daniel Ricciardo,    Red Bull Racing €5,5m
8. Felipe Massa,    Williams €4m
8. Nico Hulkenberg,    Force India €4m
8. Sergio Perez,    Force India €4m
11. Romain Grosjean,    Haas F1 €3m
11. Valtteri Bottas,    Williams €3m
13. Esteban Gutierrez,    Haas F1 €750,000
14. Kevin Magnussen,    Renault €750,000
15. Daniil Kvyat,    Toro Rosso/Red Bull Racing €750,000
16. Max Verstappen,    Red Bull Racing/Toro Rosso €500,000
16. Pascal Wehrlein,    Manor €500.000
18. Carlos Sainz,    Toro Rosso €350.000
19. Jolyon Palmer,    Renault €250.000
20. Felipe Nasr,    Sauber €200.000
20. Marcus Ericsson,    Sauber €200.000
22. Rio Haryanto,    Manor €150.000
23. Esteban Ocon    óljóst

Sama er að segja um launagreiðslur einstakra liða og ökumanna, munurinn er gríðarlegur. Til að mynda eru laun ökumanna Mercedes í ár meira en hundraðfalt hærri en laun ökumanna Sauberliðsins. Greiðslur liðanna til keppnisökumanna í milljónum evra talið voru sem hér segir 2016:

1. Mercedes €48m
2. McLaren-Honda €47m
3. Ferrari €38m
4. Force India €8m
5. Williams €7m
6. Red Bull Racing €6 - 6,25m
7. Renault €1m
8. Scuderia Toro Rosso €750.000 - €1m
9. Manor €650.000
10. Sauber €400.000

Fernando Alonso (t.v.) hjá McLaren féll úr toppsætinu á launalistanum, …
Fernando Alonso (t.v.) hjá McLaren féll úr toppsætinu á launalistanum, var með 30 milljónir evra í árslaun. Ferrari borgaði Kimi Räikkönen mun minna, eða 8 milljónir evra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert