Ferrari frumsýndi á netinu

Ferrari svipti 2017-bíl sinn hulunni í frumsýningu sem fram fór á netinu frá kappakstursbraut liðsins í Fiorano á Ítalíu. Hefur hann fengið tegundarheitið SF70-H. Bílnum verður frumekið síðar í dag í Fiorano.

Eins og bílar flestra liðanna sem lokið hafa frumsýningu er að finna hákarlsugga á kæliturni Ferraribílsins og svonefnda þumaltrjónu. Hvorugt er að finna á keppnisbíl Mercedes sem frumsýndur var í gær. Þar var hins vegar T-vængur svipaður þeim sem Ferrari er líka með á sínum bíl.

Visðtaddir athöfnina í morgun voru ökumennirnir Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen. Ferrari mætti til leiks fyrir ári með þær vonir í brjósti að keppa um titla formúlunnar. Niðurstaðan varð allt önnur og mun verri; liðið vann ekki einn einasta kappakstur og hrapaði niður í þriðja sæti í keppni liðanna, á eftir Mercedes og Red Bull.

Myndirnar sem fylgja af 2017-bíl Ferrari voru teknar í stúdíói. Sendi AFP-fréttastofan frá sér myndir frá athöfninni verður þeim bætt hér við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert