Ricciardo fljótastur

Daniel Ricciardo hjá Red Bull ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Búdapest. Var hann 0,3 sekúndum fljótari með hringinn en Kimi Räikkönen hjá Ferrari og 0,4 sekúndum á undan Lewis Hamilton hjá Mercedes.

Voru þeir þrír þeir einu sem óku hringinn í Hungaroring á innan við 1:19 mínútum og minnstu munaði að brautarmet Rubns Barrichello frá 2004 félli.

Red Bull bíllinn virtist mun betri í morgun en í síðustu mótum enda á honum miklar uppfærslur í Búdapest sem hafa það að markmiði að bæta loftflæðið um bílinn og vængpressu. Freistar Red Bull alls til að reyna draga Mercedes og Ferrari uppi í keppni.

Í sætum fjögur til tíu höfnuðu - í þessari röð - Max Verstappen hjá Red Bull, Valtteri Bottas hjá Mercedes, Sebastian Vettel hjá Ferrari, Fernando Alono og Stoffel Vandoorne hjá McLaren og Nico Hülkenberg og Jolyon Palmer hjá Renault.

Sá síðastnefndi skemmdi bíl sinn nokkuð er hann flaug út úr fjórðu beygju seint á æfingunni. Hentist hann yfir beygjubríkur og eyðilagði framvæng sinn sem olli því að sprakk á hægra framdekki. 

Þriðja mótið í röð voru báðir bílar McLaren í hópi 10 fremstu á fyrstu æfingu. Í Budapest bitnar aflskortur Hondavélarinnar ekki eins mikið á ökumönnunum og á hraðari brautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert