Stuðningsmannaklúbbur Fjölnis biðst afsökunar á munnsöfnuði og hafnar kynþáttafordómum

Stuðningsmannaklúbbur knattspyrnuliðs Fjölnis í Grafarvogi hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar vegna úrskurðar Aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands í fyrradag, en þá var knattspyrnudeild Fjölnis sektuð um 30.000 kr. vegna „grófra kalla að leikmönnum ÍBV og dómurum leiksins“ í viðureign Fjölnis og ÍBV á Grafvogsvelli á mánudaginn.

„Í ljósi atburða og umræðu síðustu daga, þá þykir okkur mikilvægt að eftirfarandi komi fram: - Við biðjumst afsökunar á munnsöfnuði okkar í garð Eyjamanna og dómara í leik Fjölnis og ÍBV þann 16. júlí. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Við vonum einnig að stuðningsmenn annarra liða læri af þessu og að þessi úrskurður KSÍ verði til þess að munnsöfnuður stuðningsmanna almennt verði háttvísari. - Varðandi umræðu í fjölmiðlum um meinta kynþáttafordóma, viljum við benda á úrskurð KSÍ á heimasíðu þeirra. Þar er minnst á gróf köll áhangenda Fjölnis, en hvergi er minnst á kynþáttafordóma, enda átti slíkt sér aldrei stað og mun aldrei verða liðið á Fjölnisvelli. - Ásakanir þessar eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Það er sorglegt að sjá hvernig farið hefur fyrir hinum ýmsu fjölmiðlum, sem hafa því miður étið þetta mál hver upp eftir öðrum. Það er ekki sæmandi fjölmiðlum sem stunda ábyrga fréttamennsku. Við sem að stuðningsmannaklúbbnum stöndum höfum kappkostað að styðja Fjölni undanfarin ár. Við höfum áður verið kallaðir dónar og biðjumst við afsökunar á slíku framferði. Við sitjum hins vegar undir röngum ásökunum um kynþáttafordóma. Við höfnum slíkum ásökunum og óskum eftir því að fjölmiðlar sýni okkur sanngirni og segi sannleikann. - Við hörmum hvernig umræðan hefur þróast, og vonum að Grafarvogsbúar og aðrir dæmi okkur ekki vegna þessa eina leiks. Að lokum viljum við bjóða alla velkomna í Grafarvoginn á föstudaginn, þar sem Fjölnismenn taka á móti Reyni frá Sandgerði. Virðingarfyllst, stuðningsmannaklúbbur Fjölnis.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert