KR og Keflavík mætast í bikarúrslitaleik kvenna

Olga Færseth skoraði fjögur mörk fyrir KR í fyrri hálfleik …
Olga Færseth skoraði fjögur mörk fyrir KR í fyrri hálfleik gegn Breiðabliki. Árni Torfason

Það verða KR og Keflavík sem mætast í úrslitaleiknum í bikarkeppni kvenna í knattspyrnu, VISA-bikarnum, á Laugardalsvellinum þann 22. september. KR lék Breiðablik grátt á Kópavogsvelli, 7:3, þar sem Olga Færseth skoraði fjögur mörk, og Keflavík sigraði Fjölni á Keflavíkurvelli, 3:1.

Danka Podovac skoraði tvö mörk fyrir Keflavík gegn Fjölni og Vesna Smiljkovic eitt en Rúna Sif Stefánsdóttir minnkaði muninn fyrir Fjölni.

Olga Færseth gerði út um leikinn í Kópavogi með fjórum mörkum fyrir KR í fyrri hálfleik en að honum loknum stóð 4:1. Hólmfríður Magnúsdóttir gerði tvö mörk í seinni hálfleik og Katrín Ómarsdóttir eitt. Fyrir Blika skoruðu Greta Mjöll Samúelsdóttir, Sandra Sif Magnúsdóttir og Mette Olesen.

Fylgst var með leikjunum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fer hún hér á eftir:

80. 3:7 í Kópavogi. Hólmfríður Magnúsdóttir skorar sitt annað mark fyrir KR og kemur Vesturbæjarliðinu fjórum mörkum yfir með hörkuskoti.

69. 3:6 í Kópavogi. Mark á mínútu í Kópavogi því Blikar minnka aftur muninn, í 3:6, þegar Mette Olesen skorar fyrir Kópavogsliðið af stuttu færi.

68. 2:6 í Kópavogi. Sandra Sif Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir Breiðablik í 2:5 en KR-ingar tóku miðju, brunuðu upp og Katrín Ómarsdóttir bætti við sjötta marki KR, 2:6.

51. 3:1 í Keflavík. Heimaliðið komst í 3:0 þegar Danka Podovac skoraði sitt annað mark, beint úr aukaspyrnu, en boltinn fór reyndar af varnarmanni í netið. Fjölniskonur svöruðu í næstu sókn, markvörður Keflavíkur hélt þá ekki boltanum, Rúna Sif Stefánsdóttir náði honum og skoraði, 3:1.

51. 1:5 í Kópavogi. Olga Færseth, sem skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik, leggur upp fimmta mark KR fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur. KR-ingar geta farið að taka frá laugardaginn 22. september þegar úrslitaleikur keppninnar fer fram á Laugardalsvellinum.

Keflavík er 2:0 yfir í hálfleik gegn Fjölni með mörkum frá serbnesku landsliðskonunum Vesnu Smiljkovic og Dönku Podovac.

KR er með örugga forystu í hálfleik í Kópavogi, 4:1. Olga Færseth hefur skorað öll fjögur mörk KR-inga en Greta Mjöll Samúelsdóttir skoraði fyrir Breiðablik.

Þetta gerðist í fyrri hálfleik í leikjunum tveimur:

40. 1:4 í Kópavogi. Olga Færseth er að ganga frá Breiðabliki eins sín liðs. Hún hefur nú skorað fjórða mark sitt og KR, eftir hornspyrnu frá Eddu Garðarsdóttur.

38. 2:0 í Keflavík. Danka Podovac kemur Keflavík tveimur mörkum yfir með glæsilegu skoti af 22 metra færi, í stöngina og inn. Hún tók sjálf hornspyrnu, sendi á Vesnu Smiljkovic, fékk boltann aftur og þrumaði honum í markið.

35. 1:3 í Kópavogi. Olga Færseth er enn á ferð og skorar þriðja mark sitt og KR-inga. Eftir langt útspark frá marki KR skallar Hrefna Jóhannesdóttir boltann innfyrir vörn Blika þar sem Olga er mætt og frá vítateigslínu lyftir hún boltanum yfir markvörð Breiðabliks.

21. 1:2 í Kópavogi. Blikar minnka muninn þegar þeir fá sína fyrstu hornspyrnu. Greta Mjöll Samúelsdóttir sendir fyrir markið, boltinn fer í gegnum þvöguna, í stöngina fjær og í netið. Sem sagt, búið að skora beint úr hornspyrnum í báðum leikjum!

10. 0:2 í Kópavogi. KR er komið tveimur mörkum yfir og aftur var Olga á ferð. KR fékk vítaspyrnu, reyndar nokkuð ódýra, þegar dæmt var á Dagmar Ýr Arnardóttur fyrir að fella Hólmfríði Magnúsdóttur. Olga Færseth skoraði örugglega úr vítaspyrnunni.

8. 1:0 í Keflavík. Vesna Smiljkovic kemur Keflavík yfir gegn Fjölni, beint úr hornspyrnu.

3. 0:1 í Kópavogi. KR-ingar ná forystu þegar Alicia Wilson skallar að marki Breiðabliks eftir hornspyrnu, boltinn er á leið í netið en Olga Færseth bætir um betur og kemur honum yfir marklínuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert