Grindavík á toppinn í 1. deild

Það var mikið fjör í Grindavík þegar heimamenn unnu Fjölni 5:2 í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld eftir að gestirnir höfðu verið 1:0 yfir í hálfleik. Grindavík komst með sigrinum í 44 stig og er í efsta sæti, fyrir ofan Þrótt á markatölu. Fjölnir er með 42 stig í þriðja sæti.

Grindavík þarf því aðeins eitt stig úr þeim tveimur leikjum sem liðið á eftir til að komast upp í úrvalsdeildina á nýjan leik og Fjölnir þarf þrjú stig úr síðustu tveimur leikjunum. ÍBV er í fjórða sæti með 38 stig og ógnar því enn þremur efstu liðunum en Eyjamenn eiga eftir að spila við bæði Þrótt og Fjölni.

Fjölnir komst yfir með sjálfsmarki á 4. mínútu en Jóhann Helgason jafnaði fyrir Grindavík, 1:1, á 52. mínútu og síðan skoraði Ivan Firer, 2:1, á 55. mínútu.

Gunnar Már Guðmundsson jafnaði fyrir Fjölnismenn úr vítaspyrnu, 2:2, á 72. mínútu en með sigri hefðu þeir verið komnir upp. Scott Ramsay svaraði því með tveimur mörkum á næstu sex mínútum, 4:2, og Andri Steinn Birgisson innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma, 5:2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert