Valur sigraði FH, 2:0, og fór á toppinn

Valsmenn fagna sigrinum á FH-ingum í Kaplakrika í kvöld.
Valsmenn fagna sigrinum á FH-ingum í Kaplakrika í kvöld. Kristinn Ingvarsson

Valur hrósaði sigri á FH, 0:2, í toppslag Landsbankadeildarinnar í Kaplakrika. Baldur Ingimar Aðalsteinsson og Helgi Sigurðsson skoruðu mörkin og með sigrinum náði Valur efsta sæti deildarinnar. Valur hefur 35 stig en FH 34. Í lokaumferðinni mætir Valur liði HK á Laugardalsvelli en FH leikur við Víking á útivelli.

Leiknum í Kaplakrika er lokið með sigri Vals, 2:0. Valsmenn eru þar með komnir í toppsæti Landsbankadeildarinnar. Valur hefur 35 stig en FH 34. Valsmenn tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn, í fyrsta sinn í 20 ár, með sigri á HK í lokaumferðinni næskomandi laugardag. FH-ingar mæta Víkingi á útivelli í lokaumferðinni. Uppbótartíminn er 4 mínútur.

88. Birkir Már Sævarsson fær að líta gula spjaldið frá Garðari Erni dómara.

84. Valur er komið í 0:2 gegn Íslandsmeisturunum. Helgi Sigurðsson skoraði eftir sendingu frá Kristini Hafliðasyni. 12. mark Helga í Landsbankadeildinni og hann er þar með orðinn einn markahæstur en næstur kemur Jónas Grani Garðarsson úr Fram með 11 mörk.

83. Helgi Sigurðsson kemst í gott færi en Daði Lárusson ver skot af öryggi. Áhorfendur í Kaplakrika eru 4.238.

81. Atli Guðnason skallar yfir Valsmarkið frá marteigshorni.

78. FH-ingar gera sína þriðju breytingu. Sóknarmaðurinn Atli Guðnason kemur inná fyrir Matthías Guðmundsson.

76. FH-ingar gera aðra breytingu. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson fer af velli og í hans stað er kominn Sigurvin Ólafsson.

75. Valur gerir sína þriðju breytingu. Guðmundur Benediktsson fer útaf og í hans stað kemur Kristinn Hafliðason.

70. Jóhannes Valgeirsson dómari leiksins þarf að fara af leikvelli vegna meiðsla og við hlutverki hans tekur Garðar Örn Hinriksson.

65. Valsmenn gera aðra breytingu á liði sínu. Bjarni Ólafur Eiríksson fer af velli og inná fyrir hann kom Hafþór Ægir Vilhjálmsson.

62. FH-ingar gera breytingu á liði sínu. Miðjumaðurinn Dennis Siim fer af velli og framherjinn Arnar B. Gunnlaugsson kemur í hans stað. Með þessu ætla FH-ingar greinilega að setja meiri kraft í sóknarleik sinn.

59. Sverrir Garðarsson miðvörður FH-inga fær að líta gula spjaldið fyrir brot á Pálma Rafni Pálmasyni.

FH-ingar eru að ná betri tökum á leiknum. Valsmenn hafa dregið sig aftar á völlinn og gefa FH-ingum talsvert svigrúm til að byggja upp sóknir sínar.

49. Sigurbjörn Hreiðarsson fyrirliði Valsmanna fær að líta fyrsta gula spjaldið fyrir brot á Davíð Þór Viðarssyni.

Síðari hálfleikurinn er hafinn í Kaplakrika. Engar breytingar voru gerðar á liðunum í leikhléinu.

Jóhannes Valgeirsson flautar til leikhlés. Valsmenn eru 0:1 yfir með marki frá Baldri I. Aðalsteinssyni. Valsmenn hafa verið öllu sterkari en FH-ingar sóttu talsvert í sig veðrið eftir mark Valsmanna.

44. Tryggvi Guðmundsson kemst í ágæt færi en Kjartan markvörður Valsmanna var vel á verði og átti ekki í teljandi erfiðleikum með að verja skotið.

42. Valsmenn gera breytinu á liði sínu. Markaskorarinn Baldur Ingimar Aðalsteinsson fer meiddur af velli og í hans stað kemur Daninn Dennis Bo Mortensen.

40. Matthías Guðmundsson kemst einn í gegn eftir langt útspark frá Daða markverði. Kjartan ver með góðu úthlaupi og rétt á eftir átti Ásgeir Gunnar Ásgeirsson skot rétt framhjá markinu úr ágætu færi.

33. Baldur Ingimar Aðalsteinsson kemur Valsmönnum yfir með skoti rétt utan markteigs eftir fyrirgjöf frá Helga Sigurðssyni.

26. Valsmenn gera harða hríð að marki FH-inga. Guðmundur Benediktsson fékk sendingu inn á markteiginn en Daði varði skot hans en hélt ekki boltanum en á elleftu stundu tókst FH-ingum að bjarga.

Fyrri hálfleikur er hálfnaður í stórleiknum í Kaplakrika og er leikurinn í jafnvægi. Valsmenn byrjuðu betur en FH-ingar hafa sótt í sig veðrið síðustu mínúturnar og fengu besta færið á 15. mínútu þegar Valsmenn björguðu á marklínu skalla frá Matthíasi Guðmundssyni.

15. Rene Carlsen bjargar frá marklínu eftir kollspyrnu frá Matthíasi Guðmundssyni.

9. Tryggvi Guðmundsson komst í gott færi en Kjartan varði fast skot hans með tilþrifum. Matthías Vilhjálmsson náði frákastinu en skaut hátt yfir markið.

5 mínútu eru liðnar af leiknum í Kaplakrika og hafa Valsmenn byrjað öllu betur en þeir leika undan undan vindi.

Lið FH: Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Tommy Nielsen, Sverrir Garðarsson, Freyr Bjarnason, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Davíð Þór Viðarsson, Dennis Siim, Matthías Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson, Tryggvi Guðmundsson.

Lið Vals: Kjartan Sturluson, Birkir Már Sævarsson, Barry Smith, Atli Sveinn Þórarinsson, Rene Carlsen, Sigurbjörn Hreiðarsson, Pálmi Rafn, Pálmason, Baldur Aðalsteinsson, Bjarni Óafur Eiríksson, Helgi Sigurðsson, Guðmundur Benediktsson.

Dómari leiksins er Jóhannes Valgeirsson og aðstoðardómarar eru Gunnar Sverrir Gunnarsson og Áskell Þór Gíslason.

Aðstæður eru ágætar á Kaplakrika. Vindinn hefur lægt og völlurinn er þurr og í góðu standi.

Valur og FH eigast nú við í Kaplakrika.
Valur og FH eigast nú við í Kaplakrika. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert