Veigar ósáttur við ákvörðun þjálfarans

Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson. Ómar Óskarsson

Veigar Páll Gunnarsson framherji norska liðsins Stabæk var ósáttur Jan Jönsson, þjálfara liðsins, eftir að Veigar var tekinn af leikvelli á 57. mínútu í gær gegn Lyn á útivelli. Staðan var 2:0 fyrir Lyn þegar Veigari var skipt útaf og kom ákvörðun þjálfarans flestum á óvart þar sem að Veigar er á meðal markahæstu leikmanna deildarinnar og að auki er hann á meðal efstu þegar kemur að stoðsendingum. Jönsson sagði í viðtali við Verdens Gang í gær að í 9 af 10 leikjum væri Veigar á meðal bestu leikmanna deildarinnar en í leiknum gegn Lyn hafi íslenski landsliðsmaðurinn ekki verið með hugann við efnið.

"Veigar mætir til leiks með réttu hugarfari í 9 af 10 leikjum okkar en í þessum leik var hann ekki með rétt hugarfar og mér fannst því rétt að skipta honum útaf," sagði Jönsson. Veigar yfirgaf Ullevaal leikvanginn í Osló áður en leikurinn var búinn og gátu norskir fréttamenn ekki rætt við hann eftir leikinn. Daniel Nannskog framherji Stabæk sagði eftir 3:2-tap liðsins gegn Lyn að leikmenn Stabæk væru of uppteknir af því hvað þeir væru sjálfir að gera inni á vellinum og liðsheildin væri ekki sú sama og áður.

Stabæk er nánast úr leik í baráttunni um meistaratitilinn eftir tapið og fyrir fjórum dögum tapaði Stabæk í undanúrslitum bikarkeppninnar gegn Lilleström.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert