Takk, Guddy

Forsíða El Mundo Deportivo í dag.
Forsíða El Mundo Deportivo í dag.

Spænska íþróttadagblaðið El Mundo Deportivo, sem gefið er út í Barcelona, þakkar Eiði Smára sigurinn á Real Betis í gærkvöld með stórri mynd af honum á forsíðu og fyrirsögninni: "Takk Guddy". Í umfjöllun um leikinn er honum líka þakkað fyrir að bjarga kvöldinu fyrir Samuel Eto'o sem gerði 100. mark sitt  fyrir Barcelona í leiknum.

Íþróttafréttamaður El Mundo Deportivo skrifar m.a.:

"Þetta hefði ekki verið sanngjarnt. Veislan þar sem Samuel Eto'o náði sínu 100. marki fyrir Barcelona varð að fá farsælan endi. Þegar Betis jafnaði, 2:2, hugsaði enginn um þann frábæra árangur markaskorarans frá Kamerún að hafa skorað 100 mörk á fimm árum í treyju Barcelona.

Til að bæta gráu ofaná svart, tók Guardiola hann af velli einmitt þegar liðið virtist þurfa á markaskorara að halda í vítateignum. Svartsýni ríkti á Camp Nou og Eto'o virtist niðurbrotinn yfir leiðum endi á þessum frábæra leik hans. En hann fór að brosa á ný þegar Eiður Guðjohnsen tryggði Barcelona sigurinn og kom um leið afreki Eto'o í sviðsljósið á ný.

Þegar Íslendingurinn skoraði hljóp Kamerúninn og faðmaði þjálfarann  sinn, sem virtist undrandi og tók fögnuðinum síðan fálega. Þrjú stig fyrir Barcelona og 100 mörk hjá Eto'o - fullkomið."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert