Er svartsýnn fyrir hönd Fletchers

Darren Fletcher gengur hnípinn af velli gegn Arsenal, eftir að …
Darren Fletcher gengur hnípinn af velli gegn Arsenal, eftir að hafa fengið reisupassann. Reuters

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki eiga von á því að áfrýjun félagsins vegna rauðs spjalds sem Darren Fletcher hlaut í leik liðsins gegn Arsenal á dögunum, muni hafa tilætluð áhrif. Hann segist sjálfur hafa haldið í fyrstu, að dómurinn væri réttur.

Fletcher fékk rautt spjald fyrir tæklingu innan vítateigs, en þegar atvikið var skoðað á myndbandi sást að ekki var um brot að ræða. Engin grundvöllur er fyrir áfrýjun rauða spjaldsins samkvæmt lögum UEFA, en Manchester United hefur þó sent skriflega áfrýjun til sambandsins.

„Þessum reglum hjá UEFA virðast ábótavant. En við höfum skrifað samúðarfullt bréf til UEFA. Við skiljum reglurnar og ég hélt satt að segja að dómarinn hefði gert rétt í að dæma vítaspyrnu meðan á leiknum stóð. Sjónarhorn dómarans og mitt var þannig að ég hélt að þetta væri víti. En endursýningar sýna greinilega að svo var ekki. En við erum ekki mjög bjartsýn hjá félaginu að þetta gangi. En við gerðum þetta fyrir Darren og maður veit aldrei hvað gerist,“ sagði Ferguson.

Mál Fletchers verður tekið fyrir hjá UEFA á mánudag, þar sem skýrist hvort hann leiki með í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þann 27. maí eður ei.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert