Adebayor óánægður með baulið

Adebayor gæti verið á leið frá Arsenal í sumar.
Adebayor gæti verið á leið frá Arsenal í sumar. Reuters

Tógóbúinn Emmanuel Adebayor, sem leikur með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segist óánægður með að stuðningsmenn liðsins hafi baulað á hann í heimaleikjum liðsins að undanförnu, en leikmaðurinn hefur ekki náð sér á strik á þessu tímabili, frekar en Arsenal liðið í heild sinni.

„Ég skil ekki af hverju þeir baula. Ef segjum Porto hefur áhuga á þjónustu Adebayor, þá liggur engin sök hjá Adebayor. Af hverju að baula á mig?“ sagði Adebayor, sem hefur gaman af því að tala um sjálfan sig í 3. persónu.

En það er ekki lið Porto sem hefur áhuga á leikmanninum, heldur risarnir í AC Milan á Ítalíu. Þegar Adebayor heyrði af áhuga liðsins, sagði hann: „Það er nokkuð sem er ansi sérstakt. Það er eins og að vera strákur sem Beyonce hefur áhuga á,“ og vísaði þar í bandarísku blökkukonuna Beyonce Knowles, söngkonuna íturvöxnu og mátti skilja ummæli hans sem svo, að hann væri afar upp með sér. 

Varla hafa þau ummæli farið vel í aðdáendur Arsenal, en Silvio Berlusconi, forseti AC Milan, lét hafa eftir sér að það væru „góðar líkur á að Adebayor komi til okkar í sumar,“ en félagið reyndi líka að fá leikmanninn til sín síðasta sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert