Verðum að byrja þar sem frá var horfið

Logi Ólafsson segir sínum mönnum fyrir verkum.
Logi Ólafsson segir sínum mönnum fyrir verkum. mbl.is/Golli

„Það er ágæt staða á okkur fyrir utan að við erum með tvo menn í banni, bakverðina Skúla Jón Friðgeirsson og Jordao Diogo,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR-inga um undanúrslitaleik liðsins í bikarkeppninni við Fram í dag. Hann hefst kl. 16 á Laugardalsvellinum.

KR er núverandi bikarmeistari eftir sigur á Fjölni, 1:0, í úrslitaleik keppninnar síðasta haust en það eru 20 ár síðan Framarar lyftu bikarnum síðast, eftir sigur á KR árið 1989.

 „Við eigum menn í staðinn sem geta leyst þessar stöður, Guðmundur Reynir Gunnarsson hefur spilað mikið sem vinstri bakvörður og svo erum við með unga menn sem eru tilbúnir í þetta. Við fengum fengum við Ásgeir Örn Ólafsson til baka úr leigu frá Selfossi og hann kemur til greina sem hægri bakvörður," sagði Logi.

Logi brosti út í annað þegar hann var minntur á að liðið hafi verið dálítið lengi í gang í síðustu leikjum. „Það er þetta með orðtakið að mæta til leiks. Við ætlum að gera það og við ætlum að reyna að klára þennan leik á 90 mínútum. Leikirnir milli þessara liða á tímabilinu hafa verið
fjörugir. Við áttum trúlega okkar slakasta leik á móti Fram á Laugardalsvellinum, en áttum góðan seinni hálfleik á móti þeim um daginn og verðum að byrja þar sem frá var horfið í þeim leik," sagði Logi.

Hann sagðist ekki gera ráð fyrir að vera með annars konar undirbúning fyrir þennan leik en hvern annan deildaleik.

„Við höldum okkur við það sem við höfum gert enda hefur það gengið ágætlega. Ég held að menn séu ekkert trekktir yfir því að þurfa að verja titilinn heldur sé meiri tilhlökkun að koma og spila, enda orðið dálítið langt síðan við höfum lékum síðast. Menn vilja miklu frekar spila en æfa," sagði Logi og hló.

Sigurliðið í leiknum í dag leikur gegn Keflavík eða Breiðabliki sem mætast á Laugardalsvellinum á sama tíma á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert