Zidane: Frekar dey ég en að biðja Materazzi afsökunar

Zidane skallar Marco Materazzi.
Zidane skallar Marco Materazzi. Reuters

Zinedine Zidane, fyrrum landsliðsmaður Frakka í knattspyrnu, segist frekar deyja en að biðja Ítalann Marco Materazzi afsökunar fyrir að skalla hann í brjóstið í úrslitaleik Frakka og Ítala á HM fyrir fjórum árum.

,,Ég bið stuðningsmennina og félaga mína afsökunar en ég mun aldrei gera það við Materazzi. Það yrði svívirðilegt og frekar myndi ég deyja,“ segir Zidane í viðtali við spænska blaðið El Pais.

Zidane var rekinn af velli fyrir að skalla Ítalann í brjóstið en Ítalir tryggðu sér heimsmeistaratitilinn eftir að hafa haft betur í vítaspyrnukeppni. Materazzi  á að hafa sagt afar niðrandi orð um móður Zidane sem brást svo illur við.

,,Það er margt sem gerist inni á vellinum en hvað þetta atvik varðar þá gat ég ekki haft hemil á mér. Þetta er engin afsökun, móðir mín var veik, hún var á sjúkrahúsi. Oft hafa menn móðgað móður mína og ég hef ekki sagt neitt en í þetta skipti þá gat ég ekki haldið aftur að mér.“

Zidane ákvað að leggja skóna á hilluna eftir heimsmeistarakeppnina og starfar nú sem ráðgjafi hjá Florentino Perez forseta Real Madrid.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert