Maradona: Landráð og svik

Diego Maradona, sem látið hefur af störfum sem landsliðsþjálfari Argentínu í knattspyrnu, sagði í kvöld að Carlos Bilardo, framkvæmdastjóri landsliðsins hefði svikið sig. Sagði Maradona, að Bilardo hefði beðið eftir tækifæri til að losna við hann.

Argentínska knattspyrnusambandið ákvað í gærkvöldi að endurnýja ekki samning við Maradona, sem gerði þá kröfu að allt starfsfólk hans yrði endurráðið. Á það féllst Julio Grondona, forseti sambandsins, ekki.

Maradona sakaði Grondona í kvöld um lygar og að Bilardo væri sekur um landráð. Bilardo var landsliðsþjálfari Argentínu árið 1986 þegar Argentínumenn unnu heimsmeistaratitilinn og Maradona var helsta stjarna liðsins.

„Grondona laug að mér. Bilardo svik mig," sagði Maradona á blaðamannafundi í Buenos Aires í kvöld.

„Grondona sagði við mig í búningsklefanum, eftir að við vorum slegnir út úr heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku, hann sagði við mig framan við vitni og leikmennina, að hann væri ánægður með störf mín og vildi að ég héldi áfram. Þegar við komum aftur til Argentínu fóru hlutirnir að taka á sig undarlega lögun og á mánudag hitti ég Grondona. Eftir minn mínútur sagðist hann vilja að ég héldi áfra en að það yrði að reka sjö aðstoðarmenn mína. Þegar hann sagði þetta var hann í raun að segja, að hann vildi ekki að ég héldi starfinu áfram. Hann veit að ég get ekki verið áfram þjálfari án félaga minna."

Þá sagði Maradona, að Bilardo hefðu unnið gegn sér bak við tjöldin.

Sergio Batista, sem hefur þjálfað ungmennalið Argentínu, hefur tekið tímabundið við landsliðsþjálfarastarfinu fyrir vináttulandsleik, sem Argentínumenn munu leika í ágúst gegn Írum í Dublin.   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert