Veigar: Rauðvínsglas og tveir bjórar breyta engu

Veigar Páll í leik með Vålerenga.
Veigar Páll í leik með Vålerenga. www.vif-fotball.no

Veigar Páll Gunnarsson segir við TV2 í Noregi að hann sé ósáttur við hvernig Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari tók á agabroti hans á laugardagskvöldið, og kveðst sjálfur hafa dregið sig út úr landsliðinu.

TV2 ræddi bæði við Veigar og Ólaf um tildrög þess að Veigar hvarf á braut úr landsliðshópnum íslenska fyrir leikinn við Kýpur, kvöldið sem íslenska liðið kom heim eftir leikinn í Noregi.

„Þegar við komum inn á hótelið sat hann á barnum og drakk,“ segir Ólafur.

„Nei, ég drakk kaffi,“ segir Veigar, sem síðan gagnrýnir hvernig Ólafur tók á málinu.

„Hann átti ekkert með að koma til mín og segja: Hvern fjandann ertu með? Hvað meinarðu, sagði ég. Þá sagði hann: Ég sé að þú hefur drukkið áfengi,“ segir Veigar, sem viðurkennir að hafa snert áfengi um kvöldið.

„Ég er fullorðinn maður. Eitt rauðvínsglas og tveir bjórar höfðu ekkert að segja fyrir leikinn gegn Kýpur,“ segir Veigar.

Þá eru þeir ósammála um hver hafi tekið frumkvæðið um brotthvarf Veigars.

„Ég fékk nóg og dró mig út úr landsliðshópnum,“ segir Veigar.

„Ég sagði að hann yrði að fara,“ segir Ólafur.

Á sama tíma er mikil umræða um norsku landsliðsmennina sem eru sagðir hafa skellt sér í bæinn og haldið upp á sigurinn gegn Íslandi og verið að til klukkan fjögur um nóttina, aðeins fjórum dögum fyrir leikinn mikilvæga gegn Dönum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert