Hjálmar 11. árið með Gautaborg

Hjálmar Jónsson, til hægri, í leik með IFK Gautaborg.
Hjálmar Jónsson, til hægri, í leik með IFK Gautaborg. www.ifkgoteborg.se

Hjálmar Jónsson, knattspyrnumaður frá Egilsstöðum, er farinn að búa sig undir sitt ellefta tímabil með sænska félaginu IFK Gautaborg. Hjálmar kom til félagsins í ársbyrjun 2002, frá Keflavík, og hefur leikið með því síðan, en hann er fyrir nokkru orðinn langleikjahæstur af núverandi leikmönnum IFK Gautaborgar og á að baki tæplega 200 leiki í sænsku úrvalsdeildinni.

„Ég á eitt ár eftir af mínum samningi og hef því ekkert hugsað mér til hreyfings. Auðvitað hef ég stundum leitt hugann að því að breyta til en mér hefur liðið vel allan tímann hérna, og svo er spennandi tímabil framundan með nýjum þjálfurum og leikmönnum og bættri aðstöðu hjá félaginu,“ sagði Hjálmar við Morgunblaðið í gær.

„Tvö síðustu ár hafa verið frekar döpur hjá liðinu og stefnan er sú að koma því aftur í toppbaráttuna þar sem það á heima,“ sagði Hjálmar en IFK Gautaborg hafnaði í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í ár. Hann varð sænskur meistari með liðinu 2007 og bikarmeistari 2008 en IFK Gautaborg er gamalgróið stórveldi í sænska fótboltanum með 18 meistaratitla að baki, auk þess sem liðið vann UEFA-bikarinn tvisvar á níunda áratug síðustu aldar.

Með liðinu leika auk Hjálmars þeir Theódór Elmar Bjarnason og Hjörtur Logi Valgarðsson, og þá leikur unglingalandsliðsmaðurinn Arnar Bragi Bergsson með unglingaliði félagsins. Ragnar Sigurðsson var seldur til FC Köbenhavn í sumar.

Nánar er rætt við Hjálmar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag í ítarlegri umfjöllun um íslenskt íþróttafólk í Svíþjóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert