Stjarnan vann meistarakeppni KSÍ í fyrsta sinn

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Kristinn

Kvennalið Stjörnunnar vann Val í Meistarakeppni KSÍ í kvöld, 3:1, en þetta er í fyrsta skipti sem Stjarnan vinnur þennan titil.

Leikið var á heimavelli Íslandsmeistara Stjörnunnar og var þetta um leið vígsla á glænýju gervigrasi liðsins.

Markamaskínan Ashley Bares kom Stjörnunni yfir, 1:0, rétt áður en fyrri hálfleik lauk en Bares var markadrottning efstu deildar í fyrra með 21 mark.

Dagný Brynjarsdóttir jafnaði metin fyrir Val, 1:1, á 53. mínútu en Íslandsmeistararnir svöruðu með tveimur mörkum.

Fyrst skoraði Inga Birna Friðjónsdóttir á 73. mínútu og svo kom Ásgerður Stefanía Baldursdóttir Stjörnunni í 3:1 með marki úr vítaspyrnu á 80. mínútu.

Valur fékk tækifæri til að minnka muninn þremur mínútum fyrir leikslok þegar dæmt var víti á Stjörnuna en Dagný Brynjarsdóttir klikkaði á vítapunktinum. Lokatölur, 3:1.

Bikarmeistarar Vals höfðu fyrir leikinn í kvöld unnið Meistarakeppnina fimm ár í röð en nú færir titillinn sig af Hlíðarenda yfir í Ásgarð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert