Sverrir Ingi: Allir undrandi á Viðari

Viðar Örn Kjartansson er kominn með 15 mörk í aðeins …
Viðar Örn Kjartansson er kominn með 15 mörk í aðeins 17 leikjum. Ljósmynd/vif-fotball.no

Það verður Íslendingaslagur í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun þegar Viking og Vålerenga mætast. Sverrir Ingi Ingason, miðvörður Viking, er fyllilega meðvitaður um að það er Viðar Örn Kjartansson sem mikilvægast er að halda í skefjum.

Viðar Örn hefur verið stórkostlegur á sínu fyrsta tímabili í Noregi og skorað 15 mörk í 17 leikjum. Viking er með fimm Íslendinga í sínum röðum en það er Viðar sem hefur stolið senunni í deildinni.

„Hann hefur farið algjörlega á kostum á tímabilinu. Ég held að allir séu hissa á þessu, líka hann. Markahæsti maðurinn í Noregi í fyrra skoraði 16 mörk en Viðar er með 15 í 17 leikjum. Hann stóð sig líka vel á Íslandi en ekki eins og hann hefur gert hér,“ sagði Sverrir Ingi við Aftenbladet.

„Ef við ætlum að stoppa Viðar verðum við að vera vel skipulagðir og passa að jafnvægið í liðinu sé gott. Við megum ekki gefa honum neitt pláss, sérstaklega ekki fyrir aftan okkur því þar er hann hættulegur," sagði Sverrir Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert