Hjörtur Logi með flestar stoðsendingar í Noregi

Hjörtur Logi Valgarðsson á ferðinni í leik með Sogndal.
Hjörtur Logi Valgarðsson á ferðinni í leik með Sogndal. Ljósmynd/Sogndalfotball.no

Vinstri bakvörðurinn Hjörtur Logi Valgarðsson hefur reynst drjúgur fyrir lið sitt Sogndal í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hann lagði upp eina mark liðsins í jafntefli við Aalesund í gær.

Hjörtur Logi hefur nú lagt upp 8 mörk í deildinni í ár, í 20 leikjum, og hefur enginn átt fleiri stoðsendingar. Petter Vaagan Moen hjá Lilleström og Christian Grindheim hjá Vålerenga hafa lagt upp jafnmörg mörk en gert það í fleiri leikjum.

Hjörtur Logi gekk í raðir Sogndal í nóvember í fyrra eftir að hafa verið hjá IFK Gautaborg í Svíþjóð. Hjá Sogndal hitti hann fyrir fyrrverandi þjálfara sinn hjá Gautaborg, Jonas Olsson, sem fékk bakvörðinn frá FH árið 2011.

Hjörtur Logi er 26 ára gamall. Hann á að baki 8 A-landsleiki en þann síðasta lék hann í nóvember 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert