Cahill skaut Áströlum áfram

Tim Cahill skorar gegn Kínverjum í dag með glæsilegum tilþrifum.
Tim Cahill skorar gegn Kínverjum í dag með glæsilegum tilþrifum. EPA

Tim Cahill heldur áfram að skora mörk fyrir ástralska landsliðið í knattspyrnu en í dag gerði hann bæði mörkin þegar Ástralir sigruðu Kínverja, 2:0, í átta liða úrslitum Asíukeppninnar á heimavelli í Brisbane.

Cahill skoraði bæði mörkin í seinni hálfleiknum og nú leika Ástralir við annaðhvort Japani eða Sameinuðu arabísku furstadæmin í undanúrslitunum en þær þjóðir eigast við á morgin.

Suður-Kórea vann Úsbekistan, 2:0, í átta liða úrslitunum í dag og mætir annaðhvort Íran eða Írak í undanúrslitum.

Cahill, sem lék lengi með Everton, er 35 ára gamall og tilkynnti eftir heimsmeistarakeppnina í Brasilíu síðasta sumar að hann væri hættur með landsliðinu. Hann gaf þó kost á sér í þessa Asíukeppni og hefur sem fyrr reynst liðinu dýrmætur. Cahill hefur nú skorað 39 mörk fyrir ástralska landsliðið og bætti enn markamet sitt með þessum mörkum í dag en hann hefur gert tíu mörkum meira en næsti maður. Hann er þó enn aðeins áttundi leikjahæstur frá upphafi en metið á Mark Schwarzer, núverandi markvörður Leicester, sem spilaði 109 leiki áður en hann lagði landsliðshanskana á hilluna fyrir hálfu öðru ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert