Benítez í viðræðum við Real Madrid

Rafael Benítez.
Rafael Benítez. AFP

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Napoli, er líklegastur til að taka við af Carlo Ancelotti sem stjóri Real Madrid samkvæmt frétt BBC í kvöld.

Allt þykir benda til þess að Ancelotti hætti hjá Real eftir lokaleik tímabilsins, gegn Getafe um næstu helgi. Hann hefur verið orðaður við AC Milan í heimalandinu. Benítez er líklegasti arftaki hans.

Viðræður eru þegar hafnar á milli fulltrúa Benítez og Real, samkvæmt frétt BBC, en ekkert samkomulag er í höfn. Benítez er með samning við Napoli sem rennur út í næsta mánuði.

West Ham hefur einnig haft samband við Benítez, sem hefur áður stýrt Liverpool og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Sam Allardyce stýrir West Ham gegn Newcastle í lokaumferð deildarinnar á sunnudag og mun í kjölfarið ræða um framtíð sína.

Benítez gerði Liverpool meðal annars að Evrópumeistara árið 2005 og stýrði Liverpool til sigurs í Evrópudeildinni 2013. Undir hans stjórn varð Napoli ítalskur bikarmeistari og liðið náði í undanúrslit Evrópudeildarinnar í ár.

Árangur stjörnuliðs Real á tímabilinu olli vonbrigðum. Liðið missti af spænska meistaratitlinum og féll úr leik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gegn Juventus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert