Platini bað Blatter um að hætta

Michel Platini vill losna við Sepp Blatter úr forsetaembætti FIFA.
Michel Platini vill losna við Sepp Blatter úr forsetaembætti FIFA. AFP

„Mér er illt í maganum yfir þessu. Eftir að hafa unnið með FIFA í mörg ár þá býður mér hreinlega við þessu,“ sagði Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, á fréttamannafundi í dag. Hann bað Sepp Blatter að segja af sér sem forseti FIFA.

Platini segir að Blatter sé ekki lengur stætt á því að halda forsetatign sinni eftir að fjöldi háttsettra manna innan FIFA var handtekinn í gær, grunaðir um spillingu. Á morgun stendur enn til að kosið verði um forseta til næstu fjögurra ára og stendur valið á milli Blatter og jórdanska prinsins Ali bin al Hussein. Platini segir ekki koma til greina að kjósa Blatter, sem verið hefur forseti síðustu 17 ár.

„Mikill, mikill meirihluti evrópsku knattspyrnusambandanna mun kjósa Ali prins. Fólk er búið að fá nóg. Það vill ekki hafa þennan forseta áfram. Ég bað um fund með honum í einrúmi og ég sagði: „Sjáðu til Sepp, við byrjuðum í FIFA árið 1998 og ég bið þig um að segja af þér, því framtíð FIFA er í húfi“,“ sagði Platini.

„Ég talaði við hann sem vin. Hann sagði að það væri of seint. Ég veit alveg hver hans áætlun er, sem er sú að fá öll samböndin saman og sannfæra fólk um að kjósa sig, og segja svo „látum lýðræðið ráða“. Mér finnst hann þegar búinn að tapa. Evrópa mun koma með mörg atkvæði gegn honum, vonandi 53 en alla vega 45-46 ef ég treysti öllum,“ bætti Frakkinn við, en hann er hóflega bjartsýnn á að það takist að koma Blatter úr embætti.

UEFA gæti slitið sig frá FIFA

„Ég tel að nú sé nóg komið og það eru margir á sama máli. Ég veit ekki hvort það dugar til en það eru margir komnir á allt aðra skoðun en áður og við vinnum ötullega í þessum málum fram eftir kvöldi,“ sagði Platini. Svo gæti farið að UEFA grípi til róttækra aðgerða fari svo að Blatter hafi betur gegn Ali á morgun:

„Ef herra Blatter vinnur þá mun UEFA hittast í Berlín til að ræða framtíðarsamband okkar við FIFA. Gæti UEFA slitið sig frá FIFA? Auðvitað,“ sagði Platini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert