Blatter vill vera í eldlínu endurreisnar FIFA

Sepp Blatter flytur stefnuræðu sína í dag.
Sepp Blatter flytur stefnuræðu sína í dag. AFP

„Ég vil í fyrsta lagi þakka ykkur fyrir að taka þátt í þeim breytingum sem orðið hafa á FIFA á síðustu 40 árum.“ Svona hljómuðu fyrstu orðin í stefnuræðu Sepp Blatters, forseta FIFA, á ársþingi sambandsins nú rétt í þessu. Hann er í framboði til áframhaldandi forystu, en kosning er nú hafin.

„Við þurfum ekki byltingu, en við þurfum alltaf að vera að þróast. Síðustu dagar hafa verið erfiðir og ég hef verið talinn ábyrgur, en þannig verður það að vera. Ég mun taka á mig þá ábyrgð því ég vil endurreisa FIFA með ykkar aðstoð,“ sagði Blatter.

„Ég vil skilja við FIFA á góðum nótum þegar öldurnar hafa lægt. FIFA sem hefur engin pólitísk afskipti og fer ekki eftir hagsmunum neins. Við getum breytt framtíðinni,“ sagði Blatter og boðaði breytingar.

„Ég vil koma inn sviði í fótboltanum þar sem fulltrúar félaga og knattspyrnudeilda fá setu, svipað og við höfum hjá dómurum í dag. Við verðum hins vegar að halda uppi heiðri heimsmeistaramótsins, það er okkar gullegg.

Við þurfum að vernda sambandið, ekki bara gegn spillingu heldur kynþáttaníð, hagræðingu úrslita, lyfjahneyksla og fleira. Fótboltinn kemur við alla heimsbyggðina og boðar frið milli ríkja. Við þurfum nú að endurreisa okkar góða nafn og byrja strax á morgun,“ sagði Blatter.

„Fótboltinn er meira en bara íþrótt og hann þarf sterkan og reyndan leiðtoga. Einhvern sem þekkir alla innviði hans og getur unnið með heilindum hans í huga,“ sagði Blatter áður en hann hélt af sviðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert