Mætir ekki á opnun HM kvenna

Sepp Blatter og Jerome Valcke.
Sepp Blatter og Jerome Valcke. AFP

Jerome Valcke, framkvæmdastjóri FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, hefur afboðað komu sína á opnun heimsmeistaramóts kvenna sem hefst í Kanada á laugardaginn.

Valcke ætlaði að vera viðstaddur þegar keppnin hæfist en Kanada og Kína mætast í fyrsta leik keppninnar á laugardagskvöldið klukkan 22 að íslenskum tíma.

„Það er mikilvægt að hann sinni verkefnum í höfuðstöðvum FIFA í Zürich," segir í yfirlýsingu frá FIFA.

Fjarvera framkvæmdastjórans vekur talsverða athygli en Sepp Blatter, forseti FIFA, verður ekki heldur á staðnum þegar keppnin hefst. Samkvæmt upplýsingum frá FIFA er þó áfram stefnt að því að Blatter mæti á úrslitaleik keppninnar 5. júlí.

Mikið hefur gengið á hjá FIFA undanfarna daga og vikur en Blatter var endurkjörinn forseti sambandsins síðasta föstudag, tveimur dögum eftir að sjö stjórnarmenn FIFA voru handteknir og ákærðir fyrir spillingu og mútur og sjö aðrir ákærðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert