Síle í úrslit í fyrsta sinn í 28 ár

Eduardo Vargas fagnar marki með félögum sínum gegn Perú í …
Eduardo Vargas fagnar marki með félögum sínum gegn Perú í nótt. AFP

Síle er komið í úrslit í S-Ameríkukeppninni í knattspyrnu í fyrsta sinn í 28 ár eftir sigur gegn Perú, 2:1, í fyrri undanúrslitum keppninnar í nótt.

Eduardo Vargas, fyrrverandi leikmaður QPR, skoraði bæði mörk heimamanna í Síle og sigurmarkið á 64. mínútu leiksins en Perúmenn léku manni færri frá 20. mínútu eftir að Carlos Zambrano var rekinn af velli.

Vargas kom Sílemönnum í 1:0 á 42. mínútu en Gary Medel varð fyrir því óláni að jafna metin fyrir Perúmenn með sjálfsmarki á 60. mínútu. Fjórum mínútum síðar skoraði Vargas sigurmarkið með þrumuskoti af um 20 metra færi.

Síle hefur aldrei unnið S-Ameríkukeppnina en 99 ár eru liðin frá því að hún var fyrst haldin.

Argentína og Paragvæ mætast í síðari undanúrslitaleiknum seint í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert