Aron fékk ekki tækifæri

Clint Dempsey skorar annað marka sinna í leiknum í nótt.
Clint Dempsey skorar annað marka sinna í leiknum í nótt. AFP

Aron Jóhannsson fékk ekki tækifæri með bandaríska landsliðinu í knattspyrnu í nótt þegar það hóf keppni í Gullbikarnum, úrslitakeppni meistaramóts Norður- og Mið-Ameríku, með því að sigra Hondúras, 2:1, í Frisco í Texas.

Clint Dempsey, fyrrverandi leikmaður Tottenham og Fulham, skoraði bæði mörk Bandaríkjamanna og kom þeim í 2:0 með marki í hvorum hálfleik en Carlos Israel minnkaði muninn fyrir Hondúras tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Panama og Haití skildu jöfn, 1:1, í hinum leik A-riðils í nótt en þessar fjórar þjóðir skipa riðilinn. Tólf lið leika í þremur riðlum og átta þeirra komast áfram í átta liða úrslitin.

Aron sat á bekknum allan tímann. Dempsey og Jozy Altidore voru í framlínu bandaríska liðsins og Chris Wondolowski kom inn á fyrir Altidore en Dempsey lék allan leikinn.

Tveir leikmenn íslenskra liða eru mættir með landsliðum sínum í Gullbikarinn. Pablo Punyed úr Stjörnunni leikur með El Salvador, sem mætir Kanada í sínum fyrsta leik næstu nótt og Jonathan Glenn úr ÍBV leikur með Trínidad og Tóbagó sem leikur við Guatemala annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert