Brotnaði saman eftir að hafa drepið hundinn sinn

Diego Costa, framherji Chelsea.
Diego Costa, framherji Chelsea. AFP

Paulo Assuncao, fyrrum leikmaður Atletico Madrid á Spáni, greinir frá hörmulegu atviki sem Diego Costa, framherji Chelsea, lenti í á tíma þeirra hjá Madrídarliðinu, en Costa bakkaði þá yfir hundinn sinn.

Ævisaga Diego Costa kom út í dag, en margar áhugaverðar sögur má finna í bókinni. Hún ber nafnið „The Art of War“, en það er Fran Guillen sem skrifar hana.

Guillen ræðir meðal annars við Paulo Assuncao, sem lék með Costa, en hann segir þar frá því er Costa bakkaði yfir hundinn sinn með þeim afleiðingum að hann dó.

Spænski framherjinn var miður sín eftir atvikið og var þunglyndur í meira en mánuð áður en hann brotnaði saman fyrir framan Assuncao.

„Diego kom alltaf með hundinn sinn til Madrídar, en einn daginn þegar hann var að leggja bílnum þá fattaði hann ekki að hundurinn væri fyrir aftan sem endaði með því að hann bakkaði yfir hann,“ sagði Assuncao.

„Hann var í rusli og virkaði mjög þungur svo ég spurði hann hvað væri að plaga hann svona mikið og þá brotnaði hann saman,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert