Hverjir skrá sig á spjöld sögunnar?

Jose Mourinho gæti jafnað eitt met og slegið annað með …
Jose Mourinho gæti jafnað eitt met og slegið annað með sigri í Meistaradeildinni í ár. AFP

Meistaradeild Evrópu hefst þriðjudaginn 15. september og knattspyrnuáhugamenn hvaðanæva um heiminn bíða í ofvæni eftir því að heyra útgáfu Tony Britten af Zadok the Priest eftir George Frideric Handel sem kemur leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum í gírinn á Meistaradeildakvöldum. Það eru ýmis met sem gætu orðið jöfnuð eða slegin þegar keppninni lýkur laugardaginn 28. maí og hér eru þau helstu. 

Ríkjandi meistarar, Barcelona, gætu orðið fyrsta liðið til þess að verja titil sinn í Meistaradeild Evrópu eftir að keppnin var sett fram í núverandi mynd árið 1992. Síðasta liðið til þess að verja titil sinn í Evrópukeppni meistaraliða var Milan, en liðið gerði það árið 1990. 

Real Madrid gætu bætt við sínum 11. titli í Evrópukeppni meistaraliða og síðar Meistaradeild Evrópu og aukið þar með forskot sitt sem sigursælasta liðið í keppninni. 

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea og Pep Guardiola, þjálfari Bayern Munchen, gætu jafnað met Bob Paisley og Carlo Ancelotti með því að stýra liði sínu til sigurs í þriðja sinn í Meistaradeild Evrópu. Þá gæti Mourinho orðið fyrstur til þess að vera í brúnni hjá þremur mismunandi sigurliðum í Meistaradeild Evrópu, en hann hefur áður sigrað sem þjálfari Porto og Inter Milan. 

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo munu svo bítast um það hvor verður ofar á lista yfir markahæstu leikmenn í Meistaradeildinni, en þeir hafa hvor um sig skorað 77 mörk í keppninni til þessa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert