Korter í gjaldþrot

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson. mbl.is/Golli

Guðlaugur Victor Pálsson skrifaði í gær undir þriggja ára samning við danska félagið Esbjerg, en hann er keyptur þangað frá sænska félaginu Helsingborg. Þar staldraði Guðlaugur Victor aðeins við í rúmt ár, en hann hefur verið á miklum faraldsfæti á síðustu árum og leikið meðal annars í Skotlandi, Bandaríkjunum og Hollandi.

„Helsingborg er í svo miklum fjárhagslegum erfiðleikum að félagið gat nánast ekki sagt nei við tilboðinu. Það er eiginlega bara korteri frá gjaldþroti,“ sagði Guðlaugur Victor við Morgunblaðið eftir undirskriftina í gær. Hann var þá staddur í Helsingborg og átti eftir að kanna aðstæður hjá Esbjerg, en hann hafði rætt við forráðamenn félagsins, sem fyrst höfðu samband fyrir um mánuði.

„Þetta hefur verið í gangi í svolítinn tíma, en svona upp og niður. Ferlið var langt en það kláraðist allt að lokum. Þeir sýndu mér mikinn áhuga og mér líst vel á þetta,“ sagði Guðlaugur Victor, sem hafði ekki hugsað sér sérstaklega til hreyfings en staðan var einfaldlega of slæm hjá Helsingborg.

„Ég var kominn hingað til félags þar sem mér hefur liðið vel og einnig í borginni. Þetta var mjög erfið ákvörðun, ein sú erfiðasta sem ég hef þurft að taka. Þjálfarinn sagði við mig að ef staðan væri betri hefði hann ekki selt mig.“

Guðlaugur Victor á að baki fjóra landsleiki fyrir Íslands hönd, en hann vonast til þess að sanna sig hjá nýju félagi þar sem hann mun spila á miðjunni.

„Ég hef verið að spila miðvörð hjá Helsingborg og þar sem ég vil berjast aftur inn í íslenska landsliðið tel ég meiri möguleikana meiri að komast inn sem miðjumaður. Það vilja allir spila fyrir Ísland og ég vil það líka mjög mikið. Ég hef verið hluti af þessum hópi og það er alveg meiri háttar. Ég vil geta tekið þátt í komandi ævintýrum, ég ætla mér að spila vel fyrir nýja félagið og vonast eftir því að fá aftur kallið inn í landsliðið,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert