„Segjast ætla að slátra okkur“

Jóhann Berg Guðmundsson í leik gegn Tékkum.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik gegn Tékkum. mbl.is/Eva Björk

Jóhann Berg Guðmundsson segist vera fullur tilhlökkunar að mæta Hollendingum í leiknum mikilvæga í undankeppni EM á Amsterdam Arena vellinum á fimmtudagskvöldið.

„Ég býst við því Hollendingar komi mjög árræðnir til leiks enda búnir að gefa það út að þeir ætla svoleiðis að slátra okkur. Hollendingarnir þurfa að vinna þennan leik en það er mikilvægt fyrir okkur að halda spennustiginu niðri og spila okkar leik. Við megum ekki hugsa of mikið um þá,“ sagði Jóhann Berg við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Amsterdam í morgun.

„Að sjálfsögðu myndum við sætta okkur við einn punkt í þessum leik en við segjum það fyrir alla leiki að við förum í þá til að vinna og svo verðum við bara að sá til hvort það takist eða ekki. Í þeirri stöðu sem við erum í riðlinum þá getum við vel sætt okkur við eitt stig.

Maður skynjar það á Hollendingunum að þeir vonist til að geta klárað okkur á fyrstu tíu mínútunum en að sjálfsögðu munum við koma í veg fyrir það en passa að fara ekki frammúr okkur. Við vitum hverjir styrkleikar þeirra eru og ef okkur tekst að loka á þá eigum við góða möguleika.“

Jóhann Berg hefur farið vel af stað með Charlton í ensku B-deildinni á tímabilinu og hefur skorað 2 mörk í fyrstu fimm leikjum liðsins í deildinni.

„Ég er búinn að spila mikið og skora einhver mörk og ég kem því ferskur í þennan leik á móti Hollendingunum. Vonandi get ég hjálpað liðinu og gert eitthvað að viti á Amsterdam Arena vellinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert