„Vissum að þessi leikur yrði erfiður“

Danny Blind var afar ósáttur við leik hollenska liðsins gegn …
Danny Blind var afar ósáttur við leik hollenska liðsins gegn Íslandi í kvöld AFP

Danny Blind, þjálfari Hollands, var sleginn eftir tap liðsins gegn Íslandi í undankeppni Evrópumóts landsliða sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Blind sagði að lið hans hefði skort fagmennsku og yfirvegun í leik sínum í kvöld. 

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Við vorum sjálfum okkur verstir í þessum leik. Ég veit ekki hvað varð til þess að Bruno Martins Indi gerði það sem hann gerði, en þetta var allavega ekki skynsamlegt hjá honum,“  sagði Danny Blind, þjálfari Hollands, í viðtali við De Telegraaf, að leik loknum í kvöld.

„Við hefðum þurft að sýna meiri fagmennsku í leiknum í kvöld. Tæklingin hjá Gregory van der Wiel var líka full fljótfærin. Hann er reynslumikill leikmaður og á að vita að í svona aðstæðum á maður að standa í lappirnar,“ sagði Danny Blind enn fremur.

„Við munum bæta við okkur vængmanni og miðverði fyrir leikinn gegn Tyrklandi vegna rauða spjaldsins hjá Bruno Martins Indi og meiðsla Arjen Robben,“ sagði Danny Blind að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert