Hafa valdið öllum vandræðum

Yuri Logvinenko, Sergei Maliy og Ulan Konysbayev, leikmenn Kasakstans, fagna …
Yuri Logvinenko, Sergei Maliy og Ulan Konysbayev, leikmenn Kasakstans, fagna marki í leiknum egn Tékkum í fyrrakvöld. mbl.is/afp

„Leikurinn við Kasakstan heima gæti orðið enn erfiðari en þessi,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir að hafa lagt Holland að velli í Amsterdam.

Það hljómar kannski hrokafullt í garð Hollendinga en Gylfi vildi eflaust bara undirstrika eitt, það verður ekkert grín að eiga við Kasakstan á Laugardalsvelli annað kvöld.

Kasakstan var það lið sem menn vildu síst af öllum fá úr neðsta styrkleikaflokki, þegar dregið var í undankeppni EM. Eins og sást í fyrri leik þjóðanna, úti í Astana, er liðið skipulagt og ágætlega spilandi, og stórhættulegt í föstum leikatriðum. Íslensku strákarnir refsuðu grimmilega fyrir mistök heimamanna í þeim leik og unnu að lokum 3:0-sigur, en það var síður en svo eins auðvelt og tölurnar bera kannski með sér.

Raunar mætti spyrja hvaða lið í riðlinum sem er hvort það sé auðvelt að leggja Kasakstan að velli, og svarið yrði alltaf nei, með þungri áherslu. Tékkar voru að enda við að merja Kasakstan í Plzen, 2:1, með sigurmarki rétt fyrir leikslok eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik. Kasakstan var 1:0 yfir gegn Hollandi á Amsterdam Arena fram í miðjan seinni hálfleik, og tapaði á síðustu átta mínútunum eftir að hafa misst mann af velli með rautt spjald. Tyrkir unnu 1:0-sigur í Astana með marki undir lok leiks, og svona mætti áfram telja.

Spila í Meistaradeildinni í vetur

Allir leikmenn Kasakstan spila með félagsliði í heimalandi sínu, en því ber að halda til haga að þar eru sterk lið. Miklum fjármunum hefur verið varið í efstu deildina og í ár komst Astana í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, sem er til marks um uppgang síðustu ára. Sjö leikmenn Kasakstan spila með Astana.

Sjá umfjöllun um lið Kasakstans í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert