Aron ekki í hópi Klinsmanns

Aron Jóhannsson í landsleik gegn Perú í síðasta mánuði.
Aron Jóhannsson í landsleik gegn Perú í síðasta mánuði. AFP

Aron Jóhannsson, sóknarmaður Werder Bremen í Þýskalandi, er ekki í 23 manna hópi sem Jürgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, tilkynnti fyrir leik gegn Mexíkó um Norður- og Mið-Ameríkubikarinn sem fram fer í Pasadena í Kaliforníu næsta laugardag.

Þar verður leikið um sæti í Álfukeppni FIFA sem fer fram í Rússlandi árið 2017, ári áður en lokakeppni heimsmeistaramótsins er haldin þar í landi.

Sóknarmennirnir sem Klinsmann valdi eru Jozy Altidore frá Toronto, Clint Dempsey frá Seattle Sounders, Chris Wondolowski frá San Jose Earthquakes og Gyasi Zardes frá LA Galaxy.

Ekkert er fjallað um ástæður fyrir fjarveru Arons á vef bandaríska knattspyrnusambandsins eða í fjölmiðlum vestanhafs. Á vef Werder Bremen kemur hinsvegar fram að hann hafi þurft að fara heim til Íslands af persónulegum ástæðum í vikunni, og auk þess sé hann í vandræðum vegna nárameiðsla. Aron hefur verið fastamaður í bandaríska hópnum undanfarin misseri og skorað 4 mörk í 19 landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert