„Mér fannst þetta aldrei vera brot“

Aron Einar óskaði Tyrkjum til hamingju með að komast á …
Aron Einar óskaði Tyrkjum til hamingju með að komast á EM. mbl.is/Eggert

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var svekktur eftir 1:0 tap gegn Tyrklandi í undankeppni EM í kvöld. Tyrkir skoruðu sigurmarkið úr aukaspyrnu á 89. mínútu, spyrnu sem Aroni fannst að hefði aldrei átt að vera dæmd.

„Mér fannst við vera með stjórn á leiknum og þeir voru í rauninni ekki að skapa sér neitt. Þetta var frábær aukaspyrna en mér fannst þetta aldrei vera brot. Við unnum skallaeinvígið heiðarlega og hann ákveður að dæma aukaspyrnu,“ sagði Aron Einar í viðtali við RÚV að leik loknum.

„En það þýðir ekki að svekkja sig á þessu. Við getum verið sáttir við frammistöðuna í dag. Seinni hálfleikur á móti Lettum fór illa og við komum til baka og gerðum það sem við vildum gera. Við getum verið stoltir þó þetta hafi verið tapaður leikur. Til hamingju Tyrkir með að hafa komist áfram.“

Hann sagði að íslenska liðið verði að vera með grundvallaratriði leiksins á hreinu til að ná árangri. „Þó þetta hafi ekki dottið okkar megin í dag þá verðum við að halda í þessar hefðir. Þessi grundvallaratriði skipta máli þegar upp er staðið og við þurfum að hafa þau alveg á hreinu í lokamótinu í Frakklandi,“ sagði fyrirliðinn við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert