Evrópumeistari tekur við Avaldsnes

Hólmfríður Magnúsdóttir og samherjar hennar fá þjálfara Evrópumeistaranna til sín.
Hólmfríður Magnúsdóttir og samherjar hennar fá þjálfara Evrópumeistaranna til sín. Ljósmynd/Avaldsnes.no

Englendingurinn Colin Bell, sem þjálfar nú Evrópumeistaralið Frankfurt í kvennaflokki, tekur við sem þjálfari norska knattspyrnuliðsins Avaldsnes, sem Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir leika með.

Eigandi Avaldsnes tilkynnti þetta á Facebook-síðu félagsins fyrir stundu.

Bell, sem sumir hafa ruglað saman við alnafna hans, gamla hetju Manchester City og enska landsliðsins, hefur þjálfað í Þýskalandi samfleytt frá 1989 eftir að hafa spilað þar í landi sjálfur í sjö ár. Hann ólst upp hjá Leicester en fékk ekki tækifæri í aðalliðinu og spilaði með þýsku liðunum Hamm og Mainz.

Bell þjálfaði karlalið til ársins 2011 en tók þá við kvennaliði Bad Neuenahr og síðan við Frankfurt árið 2013. Undir hans stjórn varð Frankfurt þýskur bikarmeistari 2014, vann sér keppnisrétt í Meistaradeildinni sama ár og stóð uppi sem Evrópumeistari síðasta vor eftir sigur á París SG í úrslitaleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert