„Chicharito“ vildi ekki vera varaskeifa

Chicharito hefur farið á kostum í Þýskalandi.
Chicharito hefur farið á kostum í Þýskalandi. AFP

Mexíkóski sóknarmaðurinn Javier „Chicharito“ Hernandez var tilbúinn að vera áfram leikmaður Manchester United gegn því skilyrði að hann fengi meiri spilatíma. Hann var seldur frá United til Bayer Leverkusen í Þýskalandi síðasta sumar. Hernandez hefur farið á kostum í Þýskalandi, skorað 13 mörk í 16 deildarleikjum í þýsku 1. deildinni.

„Ef knattspyrnustjóri United (Louis van Gaal) hefði sagt mér að ég væri sóknarmaður númer eitt þá hefði ég aldrei farið. Ég vildi bara spila fótbolta. Ég lagði hart að mér, var alltaf klár í slaginn og var góður liðsfélagi,“ sagði Hernandez.

Van Gaal ákvað að fyrirliði United, Wayne Rooney, yrði aðalsóknarmaður félagsins og Hernandez fékk að vita í lok ágúst að honum væri frjálst að fara. „Stuðningsmennirnir vildu hafa mig áfram, sem varaskeifu. Ég vildi ekki vera áfram í því hlutverki,“ bætti Hernandez við.

Mexíkóinn er ekki bitur út í van Gaal og segir stjórann hafa komið heiðarlega fram við sig. „Síðasta sumar sagði hann fyrst að ég gæti spilað meira en áður og að framtíð mín væri björt. Eftir að leiktíðin hófst sagði hann mér að Wazza (Rooney) yrði sóknarmaður númer eitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert