Þorlákur með bestu akademíu Svíþjóðar

Þorlákur Árnason
Þorlákur Árnason mbl.is/Golli

Brommapojkarna frá Stokkhólmi var með bestu akademíu fyrir ungt knattspyrnufólk í Svíþjóð árið 2015, að mati sænska knattspyrnusambandsins, og þetta er sjötta árið í röð sem félagið fær þessa viðurkenningu.

Þorlákur Árnason er yfirmaður akdemíunnar en hann tók við henni í ársbyrjun 2015 eftir langan þjálfaraferil heima á Íslandi. Hann þjálfaði síðast kvennalið Stjörnunnar með góðum árangri áður en hann flutti til Svíþjóðar eftir tímabilið 2014.

Akademían, sem nær yfir barna- og unglingastarf félagsins, er tvískipt. Til skamms tíma var hún aðeins fyrir drengi á aldrinum 8-19 ára. Brommapojkarna var líka með stúlknaflokka en ekki jafn skipulagt starf. Þorlákur breytti því og stofnaði á síðasta ári akademíu fyrir 12-19 ára stúlkur.

Brommapojkarna hefur alið upp fjölda öflugra knattspyrnumanna undanfarin ár og selt marga þeirra til atvinnuliða erlendis. Þá hefur meistaraflokkslið félagsins í karlaflokki að stærstum hluta verið byggt á uppöldum leikmönnum. Liðið lék í úrvalsdeildinni 2013 og 2014 en féll þá og féll aftur úr B-deildinni síðasta haust. Þá var Magni Fannberg þjálfari liðsins. Talið er fullvíst að dvöl liðsins í C-deild verði ekki löng.

Stigagjöf sænska knattspyrnusambandsins fyrir bestu akademíurnar er þannig en eftirtalin sjö félög eru svokölluð „fimm stjörnu félög“ Svíþjóðar:

1. Brommapojkarna, 3.778 stig
2. Malmö FF, 3.010 stig
3. Helsingborg, 2.471 stig
4. AIK, 2.374 stig
5. Elfsborg, 2.357 stig
6. IFK Gautaborg, 2.350 stig
7. Häcken, 2.254 stig

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert