Ronaldo með tvö mörk í sigri Real Madrid

Ronaldo er hér í þann mund að koma knetinum í …
Ronaldo er hér í þann mund að koma knetinum í netið. AFP

Real Madrid sigraði Athletic Bilbao, 4:2, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu. Real er þar með komið upp í 2. sæti deildarinnar með 53 stig, stigi á eftir erkifjendunum í Barcelona en Börsungar eiga tvo leiki til góða.

Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta mark leiksins á 3. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Javier Eraso metin fyrir gestina. James Rodriguez kom Madrídingum aftur yfir á 37. mínútu og staðan 2:1 að loknum fyrri hálfleik.

Toni Kroos skoraði þriðja mark Real á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og Ronaldo bætti öðru marki sínu og fjórða marki Madridar við á 87. mínútu. Gorka Elustondo klóraði í bakkann á 90. mínútu fyrir gestina en það dugði ekki til og lokastaðan 4:2 fyrir Real Madrid.

Raphael Varane var rekinn af leikvelli á 83. mínútu, í stöðunni 3:1, en það kom ekki að sök og hvítklæddir Madrídingar komnir upp í 2. sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert