Mögnuð endurkoma Bayern í framlengingu

Bayern München tryggði sér nú rétt í þessu síðasta farseðilinn í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir vægast sagt dramatískan sigur á ítölsku meisturunum í Juventus. Framlengja þurfti viðureign þeirra en þar hafði Bayern betur, skoraði tvö mörk í framlengingunni og lokatölur 4:2 en 6:4 samanlagt.

Fyrri leikurinn á Ítalíu fór 2:2 og því var búist við spennuleik og sú varð heldur betur raunin. Juventus byrjaði af krafti og Paul Pogba kom þeim yfir strax á sjöttu mínútu. Eftir tæplega hálftíma leik kom annað mark þeirra þegar Juan Cuadrado skoraði eftir magnaðan sprett Álvaro Morata. Staðan 2:0 í hálfleik og 4:2 samanlagt.

Bayern reyndi að klóra í bakkann og það tókst fyrst á 73. mínútu þegar pólska markavélin Robert Lewandowski skallaði boltann í netið. Bayern vantaði þó enn eitt mark til að knýja fram framlengingu og möguleikinn virtist vera að fjara út þegar venjulegum leiktíma lauk.

Í uppbótartíma kom hins vegar jöfnunarmarkið þegar Thomas Müller skoraði þegar níutíu sekúndur voru eftir af uppbótartímanum. Dramatíkin allsráðandi og framlenging staðreynd.

Bæði lið fengu sín færi í fyrri hálfleik framlengingarinnar, en á 108. mínútu dró til tíðinda. Thiago, sem var nýkominn inn sem varamaður, kom Bayern þá yfir með skoti úr miðjum vítateignum. Juventus setti allan kraft í sóknina, en aðeins tveimur mínútum síðar fengu þeir ítölsku rothöggið.

Hinn nítján ára gamli Kingsley Coman fékk þá boltann á vallarhelmingi Juventus, geystist upp allan völlinn og skoraði með laglegu skoti. Lokatölur 4:2 og 6:4 samanlagt, eftir að Bayern hafði verið 2:0 undir fram á 73. mínútu.

Bayern München bætist því í hóp Barcelona, Wolfsburg, Real Madrid, Benfica, PSG, Atlético Madrid og Manchester City sem verða í hattinum þegar dregið verður í átta liða úrslitunum.

Fylgst var með gangi mála í leikjum kvöldsins hér á mbl.is.

19.45 Barcelona – Arsenal 3:1 (5:1) - leik lokið. Lesa má um það HÉR.
19.45 Bayern München – Juventus 4:2 (6:4) - leik lokið.

120. Leik lokið. Bayern fer áfram, eftir að hafa verið 2:0 undir fram á 73. mínútu!

110. Mark! Bayern - Juventus 4:2. VÁ! Allt undir hjá Juventus sem setti að sjálfsögðu allan kraft í sóknina. Þeir töpuðu hins vegar boltanum og Kingsley Coman fór af stað. Hann komst óáreittur inn í teiginn, lagði boltann fyrir sig og skaut svo yfir Buffon í markinu. 6:4 samanlagt!

108. Mark! Bayern - Juventus 3:2. Þvílík dramatík! Thiago skorar fyrir Bayern eftir að Juventus náði ekki að hreinsa frá, og sá spænski náði skoti á markið úr miðjum teignum. Hann kom inn sem varamaður í fyrri hálfleik framlengingarinnar!

105. Fyrri hálfleik framlengingar er lokið. Bæði lið fengu sín færi, en ekkert mark. Nú skipta menn um helminga og leika í stundarfjórðung í viðbót. Ef ekkert mark - vítakeppni!

96. Aftur vó! Nú hinum megin, Frank Ribery í þröngu færi en nær ágætu skoti. Buffon með svakaleg viðbrögð í marki Juve og bjargar.

93. Vó! Manuel Neuer bjargar á síðustu stundu í marki Bayern, en Stephan Lichtsteiner af öllum mönnum var í úrvalsfæri!

21.43 Framlengingin er hafin!

21.37 Venjulegum leiktíma lokið. Barcelona fer örugglega áfram. Lesa má um það HÉR en við fylgjumst með framlengingu hjá Bayern og Juventus!

21.34 Mark! Bayern - Juventus 2:2. Þvílík dramatík! Á fyrstu mínútu uppbótartíma skorar Tomas Müller og jafnar metin fyrir Bayern!! Framlenging í vændum!

21.33 Mark! Barcelona - Arsenal 3:1. Endanlega komið hjá Barcelona. Lionel Messi vippar skemmtilega yfir Ospina í markinu. Samanlagt 5:1 fyrir Börsunga.

Bayern leitar hins vegar logandi ljósi að jöfnunarmarki gegn Juventus, sem myndi gefa þeim framlengingu. Venjulegur leiktími er að renna út.

21.16 Mark! Bayern – Juventus 2:1. Þetta er leikur í Þýskalandi! Robert Lewandowski minnkar muninn fyrir Bayern með skallamarki eftir undirbúning Douglas Costa. Samanlagt 4:3 fyrir Juventus núna!

21.10 Mark! Barcelona – Arsenal 2:1. Nú er öll von Arsenal úti. Og þvílíkt mark frá Luis Suárez! Eftir fyrirgjöf inn í teiginn „klippir“ hann boltann stórkostlega upp í skeytin! Staðan 4:1 samanlagt.

20.55 Mark! Barcelona - Arsenal 1:1. Er endurkoma í vændum? Mohamed Elneny skorar með þrumuskoti upp í bláhornið. Staðan samanlagt 3:1. Er von fyrir þá ensku?

20.50 Síðari hálfleikur er hafinn

20.34 Hálfleikur. Arsenal og Bayern eru í slæmum málum. 45 mínútur eftir.

20.18 Mark! Bayern – Juventus 0:2. Ítalíumeistararnir eru að fara á kostum. Þá sérstaklega Álvaro Morata, sem geystist upp völlinn og kom boltanum á Juan Cuadrado  sem skoraði annað mark Juve! Staðan orðin 4:2 fyrir þá!

20.05 Mark! Barcelona - Arsenal 1:0. Og brekkan verður bara brattari fyrir Arsenal! Neymar kemur boltanum í netið eftir undirbúning frá Luis Suárez. Nítjánda mark Brassans á Nývangi á tímabilinu!

20.03 David Ospina ver gríðarlega vel frá Lionel Messi, eftir góðan undirbúning frá Neymar!

19.52 Mark! Bayern – Juventus 0:1. Ítalíumeistararnir eru komnir yfir. Paul Pogba kemur boltanum í netið eftir að Manuel Neuer fór í skógarhlaup í marki þeirra þýsku! Staðan samtals 3:2 fyrir Juve.

19.46 Leikirnir eru hafnir.

19.00 Tölfræðin er ekkert sérstaklega góð fyrir Arsenal. Ekkert lið hefur komist áfram í útsláttarhluta Meistaradeildarinnar eftir að hafa tapað fyrri leiknum á heimavelli 2:0. Sjáum við sögulega stund í kvöld?

18.45 Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan.

Barcelona: Ter Stege, Alves, Mascherano, Mathieu, Alba, Busquets, Iniesta, Rakitic, Messi, Neymar, Suarez.

Arsenal: Ospina; Bellerin, Koscielny, Gabriel, Monreal; Elneny, Flamini; Iwobi, Özil, Sanchez; Welbeck.

---

Bayern München: Neuer, Alaba, Benatia, Kimmich, Lahm, Vidal, Alonso, Ribéry, Muller, Costa; Lewandowski.

Juventus: Buffon; Lichtsteiner, Barzagli, Bonucci, Evra; Cuadrado, Khedira; Hernanes, Pogba, Alex Sandro; Morata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert