Þetta er gott skref fyrir Sverri

Sverrir Ingi Ingason var í landsliðshópnum á EM í Frakklandi …
Sverrir Ingi Ingason var í landsliðshópnum á EM í Frakklandi í sumar. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Rúnar Kristinsson, þjálfari belgíska knattspyrnufélagsins Lokeren, segir að það sé að sjálfsögðu ekki gott fyrir sitt lið að missa Sverri Inga Ingason til Granada á Spáni en hann sé afar ánægður fyrir hans hönd.

Sverrir er á leið til Spánar þar sem hann skrifar að óbreyttu undir samning við félagið á eftir.

„Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd, þetta er gott skref upp á við fyrir hann á sínum ferli. Þetta gefur honum góða möguleika til að ná enn lengra,“ sagði Rúnar þegar mbl.is ræddi stuttlega við hann í Lokeren fyrir stundu.

Sverrir hefur átt fast sæti í liði Lokeren síðan hann kom til félagsins frá Viking Stavanger í ársbyrjun 2015. Frá þeim tíma hefur hann spilað 68 leiki með liðinu í belgísku A-deildinni og aðeins misst af þremur leikjum. Hann hefur leikið alla leiki Lokeren í deildinni í vetur, 21 talsins.

Samkvæmt heimildum mbl.is er  kaupverðið á Sverri rétt undir tveimur milljónum evra, eða um 230 milljónir íslenskra króna.

Sverrir er á leið í erfiðan fallslag með Granada. Liðið er næstneðst í spænsku 1. deildinni, hefur aðeins unnið einn leik af átján og er sex stigum á eftir Valencia  sem er í næsta örugga sæti í deildinni. Næstu leikir liðsins eru útileikir gegn Espanyol og Villarreal.

Granada leikur nú sitt sjötta tímabil í röð í efstu deild, 1. deildinni á Spáni, og hefur alltaf endað í 15.-17. sæti eftir harða fallbaráttu. Áður hafði félagið ekki leikið í efstu deild frá 1976 og farið alla leið niður í D-deildina um skeið en þar lék félagið frá 2002 til 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert