Sverrir orðinn leikmaður Granada

Sverrir Ingi Ingason í Annecy í Frakklandi síðasta sumar þar …
Sverrir Ingi Ingason í Annecy í Frakklandi síðasta sumar þar sem íslenska landsliðið hafði aðsetur á meðan Evrópukeppnin fór fram. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er orðinn leikmaður Granada á Spáni sem kaupir hann af Lokeren í Belgíu en hann var kynntur til sögunnar hjá spænska félaginu rétt í þessu.

Sverrir hefur skrifað undir samning við Granada til vorsins 2020, eða í þrjú og hálft ár. Hann kom til félagsins í fyrradag og gekkst undir læknisskoðun, Granada og Lokeren náðu samkomulagi sín á milli í gærkvöld en þá hafði hann þegar fengið leyfi belgíska félagsins til að æfa með Granada, sem hann gerði í gær.

Fyrsti leikur Sverris gæti orðið strax á laugardaginn þegar Granada sækir Espanyol heim í spænsku 1. deildinni, en reiknað er með að félagaskipti hans gangi formlega í gegn í dag.

Sverrir er 23 ára gamall miðvörður og lék fyrst með Breiðabliki en síðan með Viking Stavanger í Noregi tímabilið 2014 og með Lokeren frá ársbyrjun 2015. Talið er að Granada greiði fyrir hann í kringum 200 milljónir íslenskra króna.

Granada er í nítjánda sæti af 20 liðum í deildinni, sex stigum frá því að komast úr fallsæti, en félagið hefur sett talsverðan kraft í að styrkja sig núna í janúarmánuði.

Í dag klukkan 16 að íslenskum tíma heldur Granada formlegan fréttamannafund þar sem Sverrir verður kynntur nánar fyrir fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert