„Þetta er eiginlega bara ótrúlegt“

Haukur Heiðar Hauksson á landsliðsæfingu.
Haukur Heiðar Hauksson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er erfitt að átta sig á þessu,“ sagði Haukur Heiðar Hauksson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður AIK í Svíþjóð, þegar mbl.is heyrði í honum eftir að fréttir bárust af því í morgun að liðsfélaga hans hefði verið boðin há greiðsla gegn því að reyna að tapa leik liðsins við Gautaborg í kvöld.

Haukur er sjálfur meiddur og fór ekki með liðinu til Gautaborgar, en var að fara á æfingu í herbúðum AIK í Stokkhólmi þegar mbl.is heyrði í honum.

„Þegar ég kom á svæðið þá sögðu strákarnir mér frá því hvað hefði gerst. Þetta er eiginlega bara ótrúlegt. Þetta er svo nýbúið að gerast að menn eru enn að átta sig,“ sagði Haukur, og mátti skiljanlega ekki segja mikið um málið.

Samkvæmt því sem má lesa í umfjöllun Expressen í Svíþjóð var það markvörður liðsins sem var boðin há upphæð til þess að gera það sem hann gæti til þess að AIK tapaði leiknum. Lögreglurannsókn er hafin á málinu og ekki verður gefið upp hvaða leikmaður átti í hlut.

„Það var talað við okkur um þetta fyrir tímabilið og sagt að aðilar gætu haft samband við okkur. Við ættum að tilkynna það um leið, og sá leikmaður sem um ræðir núna fór alveg rétt að þessu. Hann talaði við þjálfarann og þjálfarinn svo tilkynnti þetta til leikmannasamtaka. Svo taka þau næstu skref eftir þetta,“ sagði Haukur.

Eru mál sem þessi orðin að vandamáli í sænskri knattspyrnu, fyrst leikmenn voru sérstaklega varaðir við?

„Ég veit það ekki, ég held að þetta sé svona um allan heim og alltaf að aukast. Ég held að menn séu varaðir við því í öllum deildum að svona hlutir geti gerst. Það er mikilvægt að tala við menn og segja þeim hvernig eigi að bregðast við í svona stöðu,“ sagði Haukur.

Haukur Heiðar Hauksson í leik með AIK.
Haukur Heiðar Hauksson í leik með AIK. Ljósmynd/aikfotboll.se

Þurfti að fara í aðra aðgerð í vor

Eins og áður segir hefur Haukur verið að glíma við mikil meiðsli. Hann fór í aðgerð á hné í desember, en félagið vildi ekki leyfa honum að fara strax og meiðslin tóku sig upp.

„Ég fór í aðgerð í desember og var byrjaður að spila aftur, en meiddist aftur á æfingu og þurfti að fara í aðra aðgerð,“ sagði Haukur, sem hefur því ekkert komið við sögu í fyrstu 8 leikjum AIK á tímabilinu.

„Þetta er búið að vera ansi óheppilegt núna, en seinni aðgerðin var bara nokkrum dögum fyrir fyrsta leik í deildinni. Þá var það liðþófi sem fór og hnéð var áður. Eiginlega út af þeirri aðgerð fór liðþófinn, svo þetta hefur verið mjög óheppilegt og ég er bara búinn að vera í endurhæfingu,“ sagði Haukur, sem getur ekki sagt nákvæmlega hversu lengi hann verður að ná sér.

„Samkvæmt plani eru svona tvær, þrjár vikur í að ég verði klár í slaginn og ég vona að það verði bara sem fyrst,“ sagði Haukur Heiðar Hauksson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert