„Ég er ekki djöfull“

Cristiano Ronaldo fagnar Spánarmeistaratitlinum í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar Spánarmeistaratitlinum í gær. AFP

Cristiano Ronaldo skammaði fjölmiðla í viðtölum eftir að Real Madrid tryggði sér Spánarmeistaratitilinn í gær í fyrsta sinn í fimm ár.

Ronaldo skoraði fyrra mark sinna manna í 2:0 sigri gegn Malaga í lokaumferðinni og Portúgalinn frábæri skoraði þar með sitt 40. mark á leiktíðinni. En eftir leikinn var Ronaldo reiður út í pressuna og sagði hana fara oft með rangt mál.

„Fólk segir hluti um mig án þess að vita þá og það pirrar mig. Og þið fjölmiðlar segið hluti um Cris án þess að vita sannleikann. Ég er ekki dýrlingur en ég er heldur ekki djöfull eins og margir halda að ég sé,“ sagði Ronaldo eftir að Real Madrid tryggði sér Spánarmeistaratitilinn í 33. sinn.

„Mér líka ekki svona hlutir því ég á fjölskyldu, ég á móður og son og mér líkar ekki þegar sagðir eru heimskulegir hlutir um mig,“ sagði Ronaldo.

„Tímabilið hefur verið frábært hjá okkur með frábæran þjálfara og frammistaða okkar seinni hluta tímabilsins er sú besta hin síðari ár. Nú viljum við fullkomna tímabilið með því að vinna Meistaradeildina,“ sagði Ronaldo en Real Madrid mætir Juventus í úrslitaleiknum á þjóðarleikvanginum í Cardiff 3. júní.

Real Madrid hefur náð þeim ótrúlega árangri á tímabilinu að skora í öllum þeim leikjum sem það hefur spilað og það hefur ekki gerst áður og Ronaldo er fyrsti leikmaður félagsins sem skorar 40 mörk eða meira sjö tímabil í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert