Birkir þarf ekki í aðgerð

Birkir Már Sævarsson
Birkir Már Sævarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Birkir Már Sævarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, þarf ekki að gangast undir aðgerð vegna viðbeinsbrotsins sem hann varð fyrir með Hammarby í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar á dögunum.

Birkir fór í röntgenmyndatöku á þriðjudaginn og niðurstöðurnar voru á þá leið að beinið hefði brotnað í tvennt án þess að færast til.

„Fyrirfram var ekki vitað hvort ég þyrfti að fara í aðgerð eða ekki. Brotið var það snyrtilegt að ekki er þörf á að negla beinið saman. Brotið mun því gróa sjálfkrafa. Mér skilst að einnig geti skapast vandamál ef brotnar úr beininu en það gerðist ekki,“ sagði Birkir, sem mun fara í aðra myndatöku á næstu vikum þar sem gengið verður úr skugga um að beinið grói eðlilega.

Hljóðið var gott í Birki í gær miðað við aðstæður og hann horfir á björtu hliðarnar. „Fyrst maður lenti í því að meiðast á annað borð er þetta svo sem ágætis tímasetning. Tímabilið er búið og lítið var fram undan hjá mér í fótboltanum fyrr en þá mögulega í janúar. Það eru fyrst og fremst flutningar hjá fjölskyldunni á dagskrá og Stebba (Stefanía Sigurðardóttir, eiginkona Birkis) hefur smá áhyggjur af því,“ sagði Birkir og hló.

Sjá allt viðtalið við Birki í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert