„Íslandsvinir“ með á HM

Leikmenn króatíska landsliðsins fagna HM-sætinu.
Leikmenn króatíska landsliðsins fagna HM-sætinu. AFP

Fjögur lið tryggðu sér um helgina farseðilinn á HM karla í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi næsta sumar.

Sviss og Króatía komust áfram í gegnum umspil í Evrópu, en Túnis og Marokkó unnu sína riðla í undankeppninni í Afríku.

Þar með eru aðeins fjögur laus sæti af 32 á HM. Ítalía og Svíþjóð leika seinni leik sinn um eitt þeirra á Ítalíu í kvöld, og Írar taka á móti Dönum annað kvöld eftir markalaust jafntefli liðanna í Kaupmannahöfn um helgina. Á miðvikudag lýkur undankeppni HM þegar Perú og Ástralía leika seinni leik sinn, eftir markalaust jafntefli í Hondúras, og Perú mætir Nýja-Sjálandi, eftir markalaust jafntefli í Nýja-Sjálandi.

Það að Króatía og Sviss hafi náð sæti á HM þýðir að líkurnar á að Ísland verði í 2. styrkleikaflokki, í stað þess þriðja, þegar dregið verður í riðla fyrir HM þann 1. desember eru litlar. Svíþjóð, Írland og Nýja-Sjáland þurfa nú að vinna sín einvígi til þess að það gerist. Sviss verður í 2. styrkleikaflokki en Króatía í 2. eða 3. flokki, en farið er eftir styrkleikalista FIFA við að raða liðum í flokkana fjóra. Króatar eru ofar en Íslendingar á þeim lista.

Þetta er fjórða skiptið í röð þar sem Svisslendingum tekst að vinna sér sæti á HM. Þeir komust í 16-liða úrslit á HM í Brasilíu fyrir fjórum árum, eftir að hafa komist á mótið á kostnað Íslands. Sviss hafði 1:0-forskot í einvígi sínu við Norður-Írland fyrir seinni leik þjóðanna í gær, og það dugði til því ekkert var skorað í seinni leiknum. Svisslendingar fengu reyndar fjölda færa til þess að skora, en voru svo heppnir að fá ekki á sig mark í uppbótartíma þegar skalli Jonny Evans var varinn af varnarmanni á marklínu.

Króatar þurftu að fara lengri leið en ella til að komast á HM í Rússlandi, eftir að hafa endað fyrir neðan Ísland í undankeppninni. Þeir áttu hins vegar ekki í neinum vandræðum með að slá út Grikki í umspilinu, því markalaust jafntefli í gær dugði vel eftir 4:1-sigur í Zagreb í fyrri leiknum. Zlatko Dalic fer því vel af stað sem landsliðsþjálfari Króata eftir að hann var ráðinn í október í kjölfar brottreksturs Ante Cacic. Hið gríðarsterka lið Króata hefur fjórum sinnum áður komist í lokakeppni HM, frá því að það gat fyrst tekið þátt í undankeppni HM 1998. Á HM 1998 náði liðið einmitt í brons.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert