Björn tilnefndur sem leikmaður ársins

Björn Bergmann Sigurðarson í leik með íslenska karlalandsliðinu i knattspyrnu.
Björn Bergmann Sigurðarson í leik með íslenska karlalandsliðinu i knattspyrnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Bergmann Sigurðarson, sem hefur gert 14 mörk fyrir Molde í 25 leikjum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, kemur til greina sem leikmaður ársins á lokahófi deildarnnar sem haldið er í samstarfi norska knattspyrnusambandsins og norsks toppfótbolta. 

Þeir leikmenn sem geta einnig hlotið nafnbótina leikmaður ársins auk Björns Bergmanns eru Nicklas Bendtner og Tore Reginiussen, leikmenn Rosenborg, og Ohi Omoijuanfo, leikmaður Stabæk.

Björn er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar, á eftir Bendtner, sem hefur skorað 18 mörk, og Omoijuanfo, sem er með 17 mörk.

Molde er í öðru sæti deildarinnar með 50 stig þegar tveimur umferðum er ólokið, en Matthías Vilhjálmsson og félagar hjá Rosenborg eru þegar orðnir norskir meistarar með 58 stig. 

Nefndin sem ákvað hvaða leikmenn kæmu til greina sem leikmenn ársins samanstendur af Nils Johan Semb, Knut Espen Svegaarden, Kenneth Fredheim, Kjetil Rekdal, Anne Sturød og Roger Risholt.

mbl.is