Hugsum hlýtt til Íra í kvöld

Nicolai Joergensen og Callum O'Dowda munu berjast um sæti á …
Nicolai Joergensen og Callum O'Dowda munu berjast um sæti á HM 2018 í Dublin í kvöld. AFP

Írland og Danmörk mætast í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2018 í knattspyrnu karla á Aviva Stadium í Dublin í Írlandi í kvöld. Þó svo að Danir standi okkur að vissu leyti nær sem Norðurlandaþjóð og vinaþjóð þjónar það hagsmunum íslenska liðsins betur að Írar fari með sigur af hólmi í leiknum í kvöld. 

Ísland á enn mögu­leika á að vera í öðrum styrk­leika­flokki þegar dregið verður í riðla fyr­ir loka­keppni heims­meist­ara­móts karla í knatt­spyrnu í Rússlandi 1. des­em­ber. Til þess þurfa þau lið sem eru neðar en Ísland á heimslistanum að tryggja sér farseðil til Rússlands í tveimur af þeim þremur umspilsviðureignum sem eftir eru. 

Írar (26. sæti) þurfa að sigra Dani (19. sæti) í kvöld og Nýja-Sjá­land (122. sæti) þarf að slá út Perú (10. sæti) aðfaranótt fimmtu­dags­ins. Staðan er 0:0 eftir fyrri leik liðanna í báðum ein­vígj­un­um. Íslenskir stuðningsmenn ættu því að senda írsku leikmönnunum hlýja strauma á meðan þeir etja kappi við frændur vora frá Danmörku í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert