Laugardalsvöllur varla kenndur við Pelé

Klara Bjartmarz (lengst til hægri) ásamt Borghildi Sigurðardóttir og Vöndu …
Klara Bjartmarz (lengst til hægri) ásamt Borghildi Sigurðardóttir og Vöndu Sigurgeirsdóttur á ársþingi FIFA í Katar í apríl. Ljósmynd/KSÍ

Eins og greint var frá á mbl.is í morgun lét Gianni Infantino forseti FIFA hafa eftir sér við kistulagningu brasilísku knattspyrnugoðsagnarinnar Pelés, sem lagður verður til hinstu hvílu í dag, að hann myndi leggja til við þjóðir heims að einn leikvangur í hverju landi skyldi kenndur við kappann.

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ sagði í samtali við mbl.is að ekkert erindi hefði borist sambandinu og hún ætti síður von á formlegu erindi þess efnis. Aðspurð hvort um væri að ræða eina af sérkennilegum hugmyndum Giannis Infantinos forseta FIFA vildi Klara hvorki játa því né neita.

„Það er alveg óljóst í hvaða samhengi forseti FIFA setti þetta fram og á hversu alvarlegum nótum. Þetta hefur að minnsta kosti ekki verið rætt hér innanhúss enn.

Við höfum auðvitað ekkert með nafngiftir knattspyrnuvalla á Íslandi að gera, annarra en Laugardalsvallar, og ég held að það sé ólíklegt að við förum að hlaupa til og endurnefna þjóðarleikvanginn.

Pelé á alla virðingu okkar skilið og það er gaman að segja frá því að hann var sæmdur gullmerki KSÍ í Íslandsheimsókn sinni árið 1991. Það hafa ekki margir erlendir aðilar hlotið heiðursmerki KSÍ en Pelé er einn af þeim,“ sagði Klara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert