Bellingham bjargaði Englandi

Jude Bellingham fagnar dramatísku jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Jude Bellingham fagnar dramatísku jöfnunarmarki sínu í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Jude Bellingham jafnaði metin á ögurstundu fyrir England þegar liðið gerði jafntefli við Belgíu, 2:2, í vináttulandsleik í knattspyrnu á Wembley í Lundúnum í kvöld.

Youri Tielemans, miðjumaður Aston Villa, kom Belgum í forystu áður en Ivan Toney jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu, hans fyrsta mark fyrir England í öðrum landsleiknum.

Tielemans var svo aftur á ferð á 36. mínútu og staðan því 1:2, Belgíu í vil, í leikhléi.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma jafnaði Bellingham hins vegar metin fyrir heimamenn og þar við sat.

Þjóðverjar skákuðu Hollendingum

Fleiri stórleikir fóru fram í kvöld. Þýskaland fékk Holland í heimsókn og vann góðan sigur, 2:1.

Joey Veerman kom gestunum frá Hollandi yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

Maximilan Mittelstadt jafnaði hins vegar metin einungis sjö mínútum síðar.

Niclas Füllkrug skoraði svo sigurmark Þjóðverja fimm mínútum fyrir leikslok.

Fimm marka fjör í Frakklandi

Frakkland mætti þá Síle í Marseille og hafði betur, 3:2, í bráðskemmtilegum leik.

Marcelino Núnez kom gestunum í forystu á sjöttu mínútu.

Youssouf Fofana jafnaði hins vegar metin fyrir Frakkland á 19. mínútu og sex mínútum síðar kom Randal Kolo Muani heimamönnum yfir.

Á 72. mínútu kom Olivier Giroud Frökkum í 3:1 en síðasta orðið átti Dario Osorio fyrir Síle þegar hann skoraði átta mínútum fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert