Brugðumst þjóðinni og fórum grátandi heim

Roman Yaremchuk á fréttamannafundinum í Wroclaw í gærkvöld.
Roman Yaremchuk á fréttamannafundinum í Wroclaw í gærkvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Framherjinn Roman Yaremchuk, einn reyndasti leikmaður Úkraínu, segir að liðið þurfi að læra af biturri reynslu síðasta umspils og gera betur gegn Íslandi í kvöld þegar þjóðirnar leika til úrslita í Wroclaw um sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta.

Úkraína sló Skotland út í undanúrslitum umspils um sæti á HM 2022 í Katar en tapaði síðan fyrir Wales í úrslitaleik.

Yaremchuk staðfesti á fréttamannafundi liðsins í Wroclaw í gærkvöld að eftir sigurinn á Bosníu á fimmtudagskvöldið hefði verið ákveðið að láta mistökin frá HM-umspilinu ekki endurtaka sig.

„Já, við ræddum um það sem gerðist eftir að við unnum Skota. Við vorum ofsaglaðir því við vorum einum leik frá því að komast á heimsmeistaramótið. En við brugðumst þjóðinni í úrslitaleiknum gegn Wales og fórum grátandi heim.

Við ræddum það eftir Bosníuleikinn að við myndum ekki brenna okkur aftur á þessu. Allir tóku því mjög alvarlega, gleymdu Bosníuleiknum og fóru heim á hótel til að einbeita sér að því að mæta Íslandi. 

Ástandið í landinu okkar gefur okkur ekkert leyfi til þess að fagna strax. Við þurfum að spila fyrir stuðningsfólkið okkar og fyrir þá sem berjast fyrir okkur í fremstu víglínu,“ sagði Yaremchuk sem er 28 ára framherji Valencia á Spáni, í láni frá Club Brugge í Belgíu, og hefur skorað 14 mörk í 47 landsleikjum fyrir Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert